Góð og gild sparnaðarleið

Útkoma skattskráa vekur alltaf athygli. Sérstaklega núna þegar við sjáum og heyrum upplýsingar um háar tekjur einstaklinga. Meiri tekjur en við höfum áður kynnst hér á landi. Allt vitnar það um þær breytingar sem hafa orðið í samfélagi okkar. Forðum voru það aflaskipstjórar, læknar og nokkrir alþekktir athafnamenn sem vermdu sæti hæstu skattgreiðenda. Oft voru það sömu nöfnin árum saman. Hver man til dæmis ekki eftir Þorvaldi í Síld og fiski sem stoltur greiddi háa skatta, sæll yfir því að geta lagt mikið til samfélagsinis. Sömu hugsun þekkti ég hjá ýmsum úti um landsins byggðir sem höfðu sama hugsunarhátt og Þorvaldur.

Miklar skattgreiðslur vitna um velmegun. Breytingin felst í því að nú er það fólk ,( aðallega þó karlar því miður ) úr nýjum starfsstéttum, sem greiða hæstu opinberu gjöldin. Breytingar sem við gerðum á skattalöggjöfinni leystu úr læðingi nýjan kraft sem nú skilar sér í auknum sköttum á nýjum sviðum. Fjármagnstekjuskatturinn er þar gleggsta dæmi.

Meðan gömlu reglurnar giltu sáum við trauðla myndast söluhagnað af eignabreytingum. Menn seldu ekki eignir þannig að það myndaði hagnað. Menn vissu nefnilega sem var að mest lenti þá í ríkiskassanum. Þess vegna var vinsælt að fjárfesta í steypu, oft suður í Reykjavík til þess að forðast að þurfa að borga uppundir helming söluhagnaðar í ríkissjóð. Fjármagnstekjur skiluðu heldur engu í ríkissjóð. Svo var reglunum breytt, skattlagning gerð hófleg og peningarnir fóru að rúlla inn í ríkiskassann.

Finna sér viðspyrnu krafta sinna í útlöndum

Vöxtur atvinnulífsins hefur verið ævintýralegur. Útrásin færir tekjur inn í landið. Útrásarfyrirtækin sækja sér tekjur til risavaxinna markaða erlendis. Væri þessi útrás ekki til staðar, myndu hin öflugu og kröftugu fyrirtæki ekki vera til staðar. Rými fyrir svona risa væri einfaldlega ekki fyrir hendi á okkar markaði. Kraftur fyrirtækjanna finnur sér því viðspyrnu í útlöndum. Það er mjög gott. Ella væri líka lítið svigrúm fyrir aðra en risana eina og finnst þó væntanlega flestum nóg um eins og staðan er núna.

 Launin sem við heyrum af í fjölmiðlunum eru sannkölluð ofurlaun. Þau eru einkanlega afsprengi söluhagnaðar sem nú kemur fram og ratar ekki í steinsteypu heldur  ofan í ríkiskassann og inn í önnur sparnaðarform og í aðrar fjárfestingar. Einnig er ástæðan sú  að menn eiga hlutabréf sem hafa hækkað meira en laun almennt og gefa af sér ávöxtun umfram það sem önnur sparnaðarform gefa kost á.

Ekki er á vísan að róa

Það er þó ekki alltaf þannig. Ekki er liðinn áratugur síðan að netbólan sprakk. Margir töpuðu þá miklu fé sem höfðu fjárfest í tölvufyrirtækjum og hátækniiðnaði; oft því miður í samræmi við ráðleggingar meintra spekinga á fjármálamarkaðnum. Það er því ekki allt sem sýnist.

Sama á við í dag. Þau fyrirtæki í íslensku Kauphöllinni sem hafa gefið besta ávöxtun frá áramótum hafa hækkað um helming – nálægt 100%. Þau fyrirtæki sem hafa ávaxtast verst hafa rýrnað í verði um þriðjung. Tökum nú dæmi sem sýnir okkur hvað þetta þýðir. Setjum sem svo að tveir menn hafi sett hvor sína milljón til hliðar í upphafi árs og fjárfest annars vegar í því fyrirtæki sem hefur ávaxtast best og hins vegar í því fyrirtæki sem er með lökustu ávöxtunina. Hver er þá staðan núna? Annar á  eitthvað um tvær milljónir króna í handraðanum, hinn á rífar 660 þúsundir. Þarna munar rúmlega 1,3 milljónum. Þar með sjáum við hversu vandasöm iðja þetta er. Einnig á þeim tímum þegar vel gengur.

Ánægjulegt

Þrátt fyrir það er ljóst að fjárfesting í hlutafé er gild sparnaðarleið. Hún getur gefið almenningi beinan aðgang að því að njóta þess þegar vel gengur í atvinnulífinu. Það er því tvímælalaust ástæða að gefa þessu gaum. Þátttaka almennings í eignarhaldi atvinnulífsins er því ein leið til þess að bæta lífskjörin þó sannarlega sé hún ekki án áhættu.  Þess vegna er sú staðreynd,  að umtalsverður hluti framteljenda á hlutafé í einhverju formi,  mjög ánægjuleg og kemur heimilunum til góða við þessar aðstæður.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband