8.8.2007 | 22:25
Já, nýtt upphaf
Tímamót, gleðidagur, tilhlökkunarefni, nú er langþráðu markmiði náð. Þessi orð og þvílík heyrðum við á Patreksfirði í dag, þegar opnuð var ný framhaldsskóladeild í tengslum við Fjölbrautaskóla Snæfellinga í Grundarfirði. Allt eru þetta orð að sönnu. Sjálfur kallaði ég þessa ákvörðun Nýtt upphaf á sunnaverðum Vestfjörðum, þegar ég skrifaði grein um þessi mál hér á heimasíðunni, þremur dögum eftir að ríkisstjórnin hafði tekið ákvörðun um þetta mikilsverða mál.
Enginn vafi er á því að þessi ákvörðun mun breyta miklu fyrir íbúa Vestur Barðastrandarsýslu. Aðgengi til náms batnar. Viðbrögð heimafólks hafa heldur ekki látið á sér standa. Athyglisvert er að langflestir nemendur sem útskrifuðust úr 10. bekk í sýslunni hyggjast fara í framhaldsskóla, flestir í nýju deildinni. Þetta skiptir miklu máli.
Í annan stað má nefna að giska stór hópur fullorðins fólks sem ekki er með framhaldsskólanám að baki hefur sótt um skólavist. Þarna er sem sé verið að opna nýja leið fyrir þetta fólk; leið sem ella hefði verið ófær, nema að flytja á brott.
Tilkoma nýju deildarinnar mun breyta mannlífi á sunnanverðum Vestfjörðum. Unga fólkið mun setja mark sitt á byggðina. Það verður líflegra um að litast og væntanlega munu ungmennin verða virkir þátttakendur í félags- og menningarstarfi, rétt eins og reyndin hefur orðið þar sem framhaldsnám er í boði. Þetta skiptir ekki litlu máli fyrir mannlífið allt.
Fyrir fjölskyldur skiptir það svo miklu að geta verið saman. Það er erfið tilhugsun að senda börnin sín frá sér til náms réttra 16 ára. Enda hefur það reynst mörgum erfitt fjárhagslega og verið ofviða fyrir óharnaða unglinga að fara að heiman á ókunnar slóðir og hefja nám á nýju skólastigi við óþekktar aðstæður.
Við vonuðumst til þess að nýja deildin myndi laða að sér unga fólkið og eldra fólk einnig. Það hefur tekist. Brottfall úr námi á svæðinu hefur verið óviðunandi. Nú er þess að vænta að á því verði breyting. Til þessu eru allar forsendur, enda sýnir reynslan að nám í heimabyggð dregur úr brottfalli nemenda.
Menntun hefur ómetanlegt gildi, alltaf og alls staðar. Ekki síst í Íslandi samtímans. Að þessu vék ég í grein minni á blogginu á síðast liðnu hausti. Þar sagði: "Menntun er algjört grundvallaratriði í nútíma samfélagi. Hreinn lykill að framtíðinni. Samfélagið verður stöðugt flóknara og krefst æ meiri sérþekkingar. Án hennar dragast menn aftur úr. Menntunin er afl nýrra hugmynda og raunar sjálfsagður þáttur í samfélagi okkar."
Þetta er kjarni málsins. Þess vegna er dagurinn góður og markar nýtt upphaf á sunnanverðum Vestfjörðum.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook