15.8.2007 | 23:44
Alþjóðavæðing íslenska hestsins
Heimsmeistaramót íslenska hestsins var mikið ævintýri. Því lauk síðast liðinn laugardag og afraksturinn var glæsilegur fyrir okkur Íslendinga. Þarna suður í Hollandi gat að líta mikið safn gæðinga, frá fjölmörgum löndum. Íslenski hesturinn er ræktaður víða. Og þeir sem gleggst þekkja til eru á einu máli um að á síðustu árum hafi orðið gríðarleg framför í því ræktunarstarfi.
Ævintýrið fyrir okkur Íslendinga sem sækjum þessa heimsleika felst í því að skynja hvílíkur miðdepill íslenski hesturinn er. Jafnfram að gera sér grein fyrir hvílíkan hróður hann ber út um heimsins álfur. Aðdáun manna á íslenska hestinum út um allan heim fylgir aðdáun á Íslandi, íslenskum siðum, framleiðslu og háttum. Ekki er óalgengt að fá svar á íslensku þegar maður ávarpar útlendinga sem komnir eru á heimsmeistaramótið. Kannski vegna þess að viðkomandi hefur verið við nám á Hólum í Hjaltadal. En svo er ekki óalgengt að hitta fyrir fólk sem dvalið hefur í íslenskum sveitum við störf á bæjunum og numið íslensku.
Ég átti spjall við Jens Iversen formann FEIF sem er heimssamtök íslenskra hestaeigenda. Hann er danskur lögfræðingur og rekur íslenskt hestabú með konu sinni, snjöllum knapa. Sjálfur hafði Iversen dvalið í Skagafirði, við sveitastörf, eins og ég. Hann hjá Sveini á Varmalæk, en ég á Skörðugili hjá Dúdda og Sigrúnu. Ekki vorum við þar þó samtímis, en ætíð var mikill samgangur á milli Skörðugils og Varmalækjarheimilanna, enda húsbændurnir vinir og einlægir í hestamennsku sinni. Við höfðum því margt að spjalla um frá þeim dýrðardögum okkar í Skagafirði.
Bresk hjón sem eru í forystu fyrir samtökum hestamanna í Bretlandi og reka þar hestabúgarð með íslenskum hestum, búa líka með íslenskar kindur. Nú vantar þau hrút og færðu í tal við mig hvort nokkuð væri til fyrirstöðu af okkar hálfu að flytja slíkan frá Íslandi.
Og enn fleiri athyglisverð dæmi get ég tekið af því hvernig íslenski hesturinn hefur hnýtt eigendur sína á erlendri grundu vináttuböndum við allt það sem íslenskt er.
Heimsmeistaramótið sannaði mér enn hve mikilvægt það er að efla hestamennskuna og skapa henni enn frekari sess á erlendri grundu. Þar eru ýmis tækifæri. Ekki síst í löndum þar sem íslenski hesturinn er lítt kunnur ennþá. Við höfum náð prýðilegum árangri sums staðar og ævintýralegum árangri annars staðar. Það sýnir okkur að við getum gert hið sama víðar. Það þarf enginn að velkjast í vafa um að það er skynsamlegt að leggja sig fram í þessum efnum á næstu árum.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook