18.9.2007 | 09:58
Jákvæðar fréttir
Menntun er lykilhugtak í nútímasamfélagi. Við höfum séð það hvernig menntun á öllum skóastigum hefur verið að eflast og taka gagngerum breytingum. Skólahald er í mikilli þróun. Rekstrarform skólanna er að breytast, skólahald markast af þeim breytingum sem hafa átt sér stað í tækniumhverfi okkar. Hugmyndafræði útrásar er farið að einkenna skólastarfið og stjórnendur háskólanna okkar miða sig hiklaust við það besta sem er að gerast í menntamálum í umheiminum.
Rannsóknarstarf Háskóla Íslands margefldist við ákvörðun um að stórefla fjármagn í þann þátt skólans. Við sáum á dögunum að háskólarnir stóðust með glans að fara í gegn um matskerfið sem menntamálaráðuneytið stóð fyrir. Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík, Listaháskólinn og Landbúnaðarháskólinn fengu lofsverða umsögn í þessu ferli. Það segir gríðarlega mikla sögu.
Nú síðast voru stórtíðindi að gerast í gær, þegar Róbert Wessman kom með heilan milljarð inn í HR, sem ætlað er að efla innri starfsemi skólans. Þess má vænta að atvinnulífið og vel megandi einstaklingar láti frekar að sér kveða á þessu sviði. Það er afar þýðingarmikið að þeir miklu fjármunir sem urðu til við gjörbreytingu íslensks atvinnulífs rati einmitt inn í menntamál okkar og efli þau. Slíkt hefur orðið lykillinn að uppgangi háskóla úti í heimi, eins og kunnugt er. Umræður um þessi mál fara nú víða fram og öllum er orðið ljóst að háskólum er það brýnt að tengjast atvinnulífinu.
Það er í sjálfu sér ekki nýtt að atvinnulífið komi til liðs við skólana. Alþekkt er að fyrr meir voru ýmsar stöður í háskólum greiddar af fyrirtækjum. Sú þróun ætti því ekki að koma nokkrum á óvart.
Það sem nú er að gerast er til marks um mikla deiglu, sem er í skólastarfsemi okkar. Jákvæð teikn sem ber að fagna.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook