Saffron byltingin

Saffron byltinginÞað er vart hægt að hugsa sér hógværari og friðsamlegri mótmæli. Hljóðlátir búddamunkarnir ganga um götur Rangoon, höfuðborgar Myanmar, sem forðum hét Burma. Í gær slógust svo nunnur með í hópinn, til þess að leggja áherslu á kröfur um einhvern vísi að lágmarksmannréttindum. Þetta fallega land, sem býr að gríðarlegum náttúruauðlindum, hefur verið höfuðsetið af harðstjórum áratugum saman, sem rænt hefur íbúana sjálfsögðustu mannréttindum og dæmt þjóðina til skelfilegrar fátæktar og harðstjórnar. Landið var undir breskri stjórn til ársins 1948 og þar voru lífskjör góð.

Herforingjar hafa verið við völd allt frá árinu 1962 og afleiðingarnar eru þetta skelfingar stjórnarástand og sár fátækt.

Eins og stundum hendir við slíkar aðstæður gerist einn atburður sem hrindir af stað mikilli atburðarrás. Skyndileg hækkun eldsneytisverðs, reyndist dropinn sem fyllti mælinn. Hinir friðsælu búddamunkar fóru út á göturnar, þeir njóta virðingar og stjórnvöld - þótt grimm séu - hafa hikað við að láta til skarar skríða gegn þeim

Munkarnir ganga um göturnar klæddir saffronrauðum búningum sínum. Sagt er að þetta sé skírskotun til helgs litar í trúabrögðunum. Nú kallast andófið austur í Burma Saffron byltingin og vísar til litar kuflanna sem munkar bera í Suðaustur Asíu. Það er dálítið merkilegt að slíkir atburðir fá hversdagsleg heiti oft sinnis. Saffron bylting er eitt slíkt, vekur upp í hugann vísbendingu um litinn og kannski kryddtegundina heimsfrægu. Hvorutveggja markað sakleysislegu og friðsælu yfirbragði. Og hvorutveggja svo viðeigandi þegar við gætum að því að það eru munkar og nunnur sem leiða andófið - byltinguna - þar eystra.

Öllum er svo ljóst að það er Aung San Suu Kyi friðarverðlaunahafi Nóbels sem gefur þessari miklu fjöldahreyfingu styrk. Hún fékk ríflega 60 % atkvæða í kosningum sem haldnar voru árið 1990, en var hneppt í gæsluvarðhald strax í kjölfarið. Hún  hefur með einstakri hugprýði staðið af sér tilraunir til herforingjanna til að brjóta hana niður. Siðferðisþrek hennar hefur verið öðrum styrkur, sem án nokkurs efa hefur haft mikla þýðingu núna.

Enginn veit hvað gerast mun. Margir spá því að herforingjastjórnin í Myanmar (Burma) láti til skarar skríða. Það hafa þeir svo sem gert áður. Nú er þeim þó meiri vandi á höndum. Munkar og nunnur hafa þannig stöðu í þessu búddíska ríki að það gæti reynst harðstjórunum dýrkeypt. Og þó að blaðamönnum sé meinaður aðgangur að landinu, gerir nútíma tækni það að verkum að auðveldara er að skrásetja atburðina fyrir heimsbyggðina. Stafræn myndavélatækni flytur myndir af ofbeldisverkum herforingjanna út fyrir landamærin, inn á síður blaðanna og um útsendingar sjónvarpsstöðvanna um heim allan.

Slíkt hefur áður reynst fallvöltum harðstjórum hættulegt. Við skulum því ekki útiloka að Saffron byltingin,  sem nú er fremur andóf,  leiði til þess að friðsamlegar aðgerðir búddamunka og nunna brjóti á bak aftur einhverja lífseigustu herforingjastjórn í heimi




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband