Þeir eru til sem vilja rýra eignir bænda

Blessuð sértu sveitin mínHækkun á verði bújarða hefur kallað á umræður. Það er eðlilegt. Verðhækkun á bújörðum er breyting frá ástandi sem forðum ríkti þegar verðmæti þeirra var lítið. Ekki eru mörg ár síðan að hið opinbera varð að leysa til sín jarðir bænda. Þeir voru staddir í einhvers konar úlfakreppu - gildru - sem þeir ekki komust út úr. Nú þegar svo bregður við að þróunin er á annan veg fara menn að velta fyrir sér hinu nýja ástandi.

Verðhækkunin er jákvæð. Menn hafa velt þvi fyrir sér hvort hátt jarðaverð stuðli að fólksfækkun í sveitum. Má þá ekki spyrja hvort lágt verðgildi á bújörðum hafi stuðlað að því að fólk flutti í sveitirnar. Við vitum að svo var ekki. Hið lága verð endurspeglaði einmitt að eftirspurnin var lítil.

Við vitum að eignaverð í landinu hefur hækkað mikið undanfarin ár. Menn kalla það auðsáhrif og þau hafa meðal annars stuðlað að því að fólk og fyrirtæki hafa getað tekist á við stærri verkefni sem hafa síðan aukið almenna velferð í landinu. Húsnæðisverð hefur víða hækkað. Hlutabréf hafa hækkað í verði. Ávöxtun á margs konar fjárfestingum í hlutabréfum og skuldabréfum hefur verið góð. Hækkun á verði bújarða hefur örugglega ekki verið úr samhengi við aðrar hækkanir á eignum í landinu. Má raunar efast um að verðhækkanir á jörðum hafi einu sinni náð að halda í við ávöxtun á ýmsum öðrum eignum hér á landi.

Búháttabreytingarnar sem hafa orðið í landbúnaðinum okkar hafa átt sinn þátt í því að auka eftirspurn eftir jörðum og hafa stuðlað að bættri eignamyndun til sveita. Skógrækt, þar sem bændur eru helstu gerendurnir hefur til dæmis aukið verðmæti jarðanna. Nýrri framleiðslugreinar, sem laða að sér fólk úr þéttbýli, hafa sömuleiðis ýtt í sömu átt. Margt fólk hefur flutt úr þéttbýli í sveitirnar, vegna möguleika á slíkri nýrri atvinnustarfsemi. Það er góð þróun.

Þess vegna eiga menn ekki að hryggjast yfir því að eignamyndun á sér stað á meðal bænda. Öðru nær. Þeir sem láta í ljósi gagnrýni á þá þróun sem hefur orðið til sveita, hljóta að hafa þá skoðun í raun, að nauðsynlegt sé að rýra eignir bænda og jarðeigenda. Það eiga þeir þá að segja. Menn sem sjá skrattann í hverju horni þegar fréttist af hækkun jarðaverðs, eiga að vera sjálfum sér samkvæmir og leggja til aðferðir við að lækka jarðaverð og rýra þar með eignir bænda.

Þeir mega þá jafnframt vita að slíku verður ekki tekið þegjandi. Nær er nefnilega að gleðjast yfir aukinni eignamyndun í sveitum heldur en að hafa allt á hornum sér yfir slíku.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband