24.10.2007 | 22:57
Kvöldstundir með Gísla
Vegna þess að ég er sem betur fer ekki þingmaður fyrir Framsóknarflokkinn, né framsóknarmaður yfirhöfuð get ég óhræddur ljóstrað því upp að ég sæki núna tíma hjá Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands, þar sem snilldarverkið Gísla saga Súrssonar er viðfangsefnið. Í Framsóknarflokknum mega þingmenn ekki stunda nám eins og kunnugt er, öðruvísi en verða undirorpnir gagnrýni flokkssystkina sinna fyrir tiltækið. Þessu er sem betur fer ekki svona farið í flokknum mínum. Þess vegna fer ég á þriðjudagskvöldum með Sigrúnu konu minni í tíma í Gísla sögu
Magnús Jónsson leiðir þennan góða hóp sem kemur saman á þriðjudags og miðvikudagskvöldum til þess að kryfja söguna af útlaganum vestfirska, sem hrífur hvern þann sem söguna les. Textinn er mergjaður, fullur af snjöllum orðatiltækjum, myndrænum lýsingum hvar sem borið er niður.
Fyrir nú utan atburðarrásina sjálfa. Ást og afbrýði, lýsing á miklum görpum, persónusköpun og frásögn þar sem spunnið er saman ótrúlegustu fléttum mannlegra örlaga.
Svo spillir það ekki fyrir að vettvangur sögunnar er svæði sem ég þekki vel. Vestfirðir eru sögusviðið. Haukadalur í Dýrafirði, Breiðafjörður og loks Geirþjófsfjörður, svo nokkrir landfræðilegir hápunktar sögunnar séu nefndir.
Fyrir nokkrum árum gengum við Sigrún með vini okkar Þóri Erni Guðmundssyni á Þingeyri um sögusviðið í Haukadal. Hann er manna kunnugastur; jafnt sögunni sem sögusviðinu. Þetta var ógleymanlegur eftirmiðdagur og frásögnin birtist manni sem ljóslifandi mynd. Í sumar bætti ég svo um betur. Við Þórir gegnum saman oní Geirþjófsfjörð í sumar og áttum þar góðan tíma, í þeirri einstöku náttúruperlu þar sem sagan drýpur af hverju strái. Um Þóri vin minn hef ég sagt og segi hvenær sem er, það sem hann ekki veit um Gísla sögu er ekki þess virði að vita. Þessari ferð okkar í Geirþjófsfjörð lýsti ég í bloggi 2. ágúst síðast liðinn.
En aftur að tímunum hjá Magnúsi, í Gísla sögu. Þarna er notalegt að verja kvöldstund vikulega. Verð þó að játa að fundir hafa spillt nokkuð fyrir mér tímasókninni, en það breytir því ekki að þetta hafa verið lærdómsríkar kvöldstundir. Mörg andlit nemendanna eru kunnugleg frá fyrri násmskeiðum sem ég hef sótt; jafnvel alveg frá þeim tíma sem ég sótti námskeið Jóns Böðvarssonar í Njálu forðum tíð.
Það segir svo heilmikla sögu um hvernig Íslendingasögurnar lifa í hugum okkar nútímafólks að námskeiðið í Gísla sögu var svo vel sótt að Magnús kennari okkar mátti bæta við nýrri kvöldstund, til þess að geta hleypt okkur öllum, áhugasömum nemendunum að. Þökk sé honum, þökk sé Endurmenntunarstofnun.
En umfram allt, snilldarsagan af Gísla Súrssyni er sígilt snilldarverk. sem mun eiga erindi við lesendur um ókomna tíð.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook