Hver er skoðun VG á samþykkt Landsvirkjunar?

Búrfellsvirkjun í ÞjórsáSú skynsamlega og rökrétta ákvörðun stjórnar Landsvirkjunar frá því fyrir helgi, um að selja ekki orku að sinni til stóriðjufyrirtækja á suðvesturlandi var rædd í þinginu í gær. Upp úr umræðunni stóð að Vinstri grænir höfðu ekki burði til þess að segja frá afstöðu sinni til þessa máls. Flestum lék forvitni á að heyra af skoðun flokksins til málsins. Um er að ræða ákvörðun sem ætla hefði mátt að félli VG vel í geð. Hætta við að selja orku til álverksmiðja, en selja þess í stað til annarra kaupenda; svo sem netþjónabúa. Við slíka iðju starfar vel menntað fólk, konur og karlar, þangað má sækja margvísleg störf. Þetta virðist manni eins konar uppskrift að stefnu sem VG hefði fallið í geð.

En er það svo?

Ekki glitti í það að VG lýsti ánægju sinni með þessa stefnumótun. Það var bara á ferðinni sama gamla sífrið. Vantaði þó ekki að stórkanónur VG í tækju þátt í þessum umræðum um orku og stóriðjumál. Væru á vettvangi umræðunnar. Bæði Steingrímur J. ( sem raunar hóf umræðuna) og Kolbrún Halldórsdóttir tóku til máls.

Kannski stafar þetta af því að í raun er VG eini flokkurinn sem núna heldur úti virkri stóriðjustefnu, eins og flokkurinn hefur nefnt stuðning við uppbyggingu orkufreks iðnaðar. Flokkurinn hefur öll tögl og hagldir í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur. Svo er manni að minnsta kosti sagt þegar kemur að stórmálum eins og REI og skyldum hlutum. Nú vitum við að Orkuveita Reykjavíkur ætlar að sjá nýrri stóriðju í Helguvík fyrir orku. Annarri álverksmiðjuuppbyggingu er hins vegar ekki til að dreifa næstu árin í landinu. Stóriðjustefnan er þess vegna þessi dægrin ær og kýr VG. Þar er rekin "stóriðjustefnan" á Íslandi í dag. Í ljósi þess ber því að skoða hik talsmanna flokksins þegar kemur að því að tjá sig um stefnumörkun stjórnar Landsvirkjunar.

Flóknara er það mál því ekki. Álverksmiðjan á Bakka við Húsavík er ekki á framkvæmdastigi fyrir en að liðnum einhverjum árum og samþykkt stjórnar Landsvirkjunar snertir þau framkvæmdaáform ekki.

Svo var blessaður borgarstjórinn spurður í sjónvarpinu í gærkveldi út í áhrifin af stefnumörkun stjórnar Landsvirkjunar á áform OR. Svarið var í anda hins skýra vörumerkis borgarstjórans. Fullt af fallegum orðum, en lítil merking. Fyrir þá sem hafa gaman af getraunum og spurningakeppnum er ábyggilega áhugavert að velta fyrir sér merkingum þessara fögru orða-umbúða. Áhugaleysi höfundar þessara lína á slíkri ágiskanakeppni meinar hins vegar að hér verði þess freistað að ráða í orð borgarstjórans.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband