15.11.2007 | 00:00
Orð í tíma töluð
Þegar forsætisráðherra hvetur til sparnaðar í þjóðfélaginu, þá ætti það að hljóta almenna velþóknun. Orð Geirs H. Haarde forsætisráðherra í útvarpinu nú á dögunum í þessa veru, voru sannarlega í tíma töluð. Vextir eru háir, sparnaðarhlutfall of lágt, ójöfnuður í viðskiptum við útlönd, landsmenn að verða aðhlátursefni fyrir verslunaræði í útlendum verslunarútibúum á höfuðborgarsvæðinu og umsvif í framkvæmdum umfram það sem vinnumarkaður okkar ræður við.
Þess vegna var það afskaplega sérstakt að lesa neikvæði viðbrögð einstakra álitsgjafa í fjölmiðlum í dag vegna orða forsætisráðherra.
Við þurfum á minni eyðslu að halda og meiri sparnaði. Víst er að ekki eru allir í færum til þess að rifa sín segl. Þeir sem lökust hafa kjörin munu vísast ekki eiga þess kost að leggja mikið til hliðar. Enda beindi forsætisráðherra orðum sínum til þeirra sem hefðu borð fyrir báru.
En í þjóðfélagi sem einkennist af mikilli neyslugleði, metinnflutningi á lúxusjeppum, margföldun utanlandsferða og þvíumlíku, er sannarlega rúm til aukins aðhalds.
Í sumum löndum er forsjálni almennings vandamál. Þó vextir séu lækkaðir ofan í nánast ekkert, taka Japanir að sögn, ekki upp pyngju sína til þess að eyða. Þeir safna til hinna mögru ára. Hjá okkur eru þessu öfugt farið, eins og við vitum. Þegar vextir hækka innanlands sækjum við okkur bara aukinn neyslueyri í formi erlendra lána, af því þar eru vextirnir lágir. Fyrir ofan okkur dinglar svo Damóklesarsverð gengisáhættunnar. Greiningardeildirnar í bönkunum eru allar sammála um að gengi krónunnar muni lækka á næsta ári og hækka þá skuldir þeirra sem skulda í erlendri mynt. Slíkri hækkun lána verður ekki mætt með auknum kaupmætti, því við svoleiðis aðstæður myndast misgengi, sem enginn ætti að gleyma.
Þrátt fyrir þetta erum við lukkuleg þjóð. Hér er atvinnustig hátt, lífskjör hafa batnað, störfum fjölgað í heildina tekið og möguleikar þjóðarinnar til þess að njóta velsældar hafa aldrei verið svona miklir.
En orð forsætisráðherra voru í tíma töluð. Þau voru mælt af gefnu tilefni. Og jafnvel þeir sem vernda vilja stundarhagsmuni sína, verða að sýna umræðunni þá virðingu að hefja sig upp úr sérhagsmununum sínum. Ofhitnun efnahagslífsins, þensla og skortur á sparnaði hjá þeim sem tvímælalaust geta dregið úr útgjöldum sínum, hefnir sín að lokum. Og þá mega glataðir stundarhagsmunir sín lítið né stoðar mönnum að beita lítt dulbúinni vörn í umræðunni í þágu sérhagsmuna sinna.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook