Blekkingartjöld og ímyndarsköpun

Kim Jong Il leiðtogi Norður-KóreuBeint fyrir framan mig á fundi hjá FAO á dögunum, sátu fulltrúar frá Norður Kóreu. Þeir virtust ekki vinamargir, en fögnuðu hins vegar innilega þegar vinir þeirra frá Burma ( Myanmar) gengu að borði þeirra. Sækjast sér um líkir. Þarna var greinilega fagnaðar- og vinafundur og undireins spurt hvort Kínverjar væru á næstu grösum.

Það er með Norður Kóreu eins og ýmis önnur ríki, þar sem mannréttindi eru fótum troðin og virðing fyrir einstaklingunum engin, að heiti ríkisins er skrautlegt. Það er svo að sjá að í þeim ríkjum þar sem orðspor á sviði mannréttinda er verst sé reynt að hafa heitin þannig að telja megi að þar sé sem himnaríki á jörð. Democratic People's Republic of Korea , eða Lýðræðislega alþýðulýðveldið í Kóreu, er til dæmis nafn Norður Kóreu, þar sem hvorki fer þó vel um alþýðu manna né ríkið á nokkurn hátt lýðræðislegt.

Við þekkjum þetta svosem frá tímum gömlu austurblokkarinnar. Alþýðulýðveldin voru alræðisríkin í Austur Evrópu kölluð. Ætli þetta sé ekki dæmi um tilraun til ímyndasköpunar, sem hvert mannsbarn sér þó í gegn um.

Lýðræðisríkin skreyta sig ekki með þess konar heitum. Þar sem ástand mannréttinda er gott, þurfa menn ekkert að dylja sig með felulitum eða sveipa sig blekkingartjöldum, fráleitrara nafngifta.

Okkar fámenna ríki nýtur á vettvangi eins og FAO mikils álits. Árangur okkar við auðlindanýtingu og uppbyggingu sjávarútvegs sem atvinnugreinar skapar okkur gott orðspor. Eftir að ég hafði til að mynda flutt ræðu mína sem fjallaði um sjávarútvegs og landbúnaðarmál, kom til okkar fulltrúi fiskimáladeildar FAO, til þess að fá eintak af ræðunni. Orð Íslendinga vigta í umræðunni sagði hann, sem gladdi vissulega.

Á fjölþjóðlegum vettvangi getum við látið til okkar taka á efnislegum forsendum og það eigum við sannarlega að gera. Samstarf okkar við FAO er gott og þar má sjá ýmislegt sem við höfum haft áhrif á til góðs. Við þurfum hins vegar ekki að skreyta okkur með stolnum eða vafasömum fjöðrum. Okkur nægir bara að koma til dyranna þar eins og við erum klædd og leggja með okkur í umræðuna eitthvað af því sem við höfum að miðla.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband