Döpru vísindin minna á sig

Mynd IÞað er skemmst frá því að segja, að ef við notuðum sömu mælingu á verðlag og þjóðir Evrópusambandsins þá værum við á svipuðu róli og þær hvað verðlagsbreytingar áhrærir.Eins og ég benti á í ræðu á aðalfundi LÍÚ 25. október sl. Úti í Evrópusambandinu taka menn ekki tillit til þróunar húsnæðisverðs. Það gerum við hins vegar. Verðlag á húsnæði hefur þróast hér langt umfram annað. Knúið áfram af auknu lánsfjármagni úr bönkum og Íbúðalánasjóði og niðurgreitt með 5 til 6 milljarða vaxtabótum frá ríkinu. Allt í góðum tilgangi, en hefur orðið til þess að erfiðara er fyrir fólk - einkanlega ungt fólk - að eignast húsnæði. Þetta er gamla sagan um veginn til glötunar sem varðaður er góðum ásetningi.

Þegar það er rætt að taka húsnæðisliðinn út úr vísitölunni er einkanlega bent á eitt gegn því. Semsagt að verðhækkun á húsnæði (eignum) sé vísbending um aukna einkaneyslu síðar. Eignamyndunin gefi með öðrum orðum færi á því að fá frekari fjármagnsfyrirgreiðslu til þess að nýta til alls konar annarra hluta. Við þekkjum það svo sem. Stórir og stöðugt stærri bílar, ennþá betra húsnæði, utanlandsferðir og sitthvað annað.

Nú hillir undir breytingar. Seðlabankinn hefur knúið upp stýrivexti sína. Vísar í umsvif þjóðarbúsins, vekur athygli á verðbólgunni eins og við mælum hana. Þess vegna eru stýrivextirnir svona háir. Og þeir eru farnir að bíta. Vextir hér á landi hafa hækkað í kjölfarið. Og til viðbótar eru aðstæður þannig á erlendum mörkuðum að það stuðlar einnig að hærri vöxtum. Það ríkir varúðarástandi á erlendum fjármálamörkuðum. Íslensku bankarnir þurfa að greiða gríðarlega hátt álag á fjármagn sem þeir sækja sér til útlanda. Sumir þeirra eru mjög háðir slíku fjármagni. Þetta fjármagn verða þeir að forvalta og bjóða það viðskiptavinum sínum við háu afgjaldi - vöxtum. Þetta er farið að taka í.

Auðsáhrifin sem einu sinni sköpuðust vegna hækkandi hlutabréfa og hærra húsnæðisverðs hafa gengið til baka hvað varðar hlutabréfin og nú spá menn því að húsnæðisverð muni hækka með hóflegri hætti. Skuldugir hlutabréfaeigendur eru farnir að selja bréfin sín, sem leiðir líka til lækkunar á verði þeirra núna.

Húsnæðisliðurinn fer þess vegna væntanlega að hækka með skaplegri hætti og meir í takt við annað verðlag. Hann hættir að verða sérstakt fóður til stýrivaxtahækkana. Réttlæting til aukinnar einkaneyslu og misgáfulegra fjárfestinga, sem hefur fundist með skírskotun til hærra húsnæðisverðs og hlutabréfahækkana er á förum úr hagkerfinu okkar. Þess hlýtur því að fara að gæta á verðbólgutölum og stýrivöxtum. Þessa mun einnig gæta á vinnumarkaðnum sem stuðlar að meira jafnvægi

Hagfræðin virkar nefnilega í báðar áttir í þessum fræðum eins og öðrum þáttum hinna döpru vísinda.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband