Jákvæð stórtíðindi og afneitun sumra

Það er gott að búa á ÍslandiÞær fréttir að að Íslendingar njóti bestra lífsgæða samkvæmt viðurkenndum staðli sem Þróunarstofnun Sameinuðu þjóðanna hefur unnið, eru auðvitað jákvæð stórtíðindi. Við skákum meira að segja hinum olíuauðugu nágrönnum okkar í Noregi. Þetta er mikil viðurkenning á íslensku samfélagi, sem ætla má að almennt hefðu menn fagnað.

Hér er ekki spurning um stjórn eða stjórnarandstöðupólitík. Hér er heldur ekki mál sem ætti að draga menn í einhverja aðra skoðanalega dilka. Ætla mætti að Íslendingar almennt, fögnuðu því þegar í ljós kæmi að þjóðfélag okkar væri þannig að hér séu bestu lífsgæði í heimi.

En það er ekki svo, því miður og kemur á óvart.

Það gekk fram af manni neikvæði nöldurtónninn sem birtist í þessari umræðu. Þingmenn úr Vinstri grænum og Frjálslynda flokknum fóru til dæmis í hefðbundna neikvæðni-gírinn sinn, þegar þessi mál voru rædd á Alþingi á þriðjudaginn. Undarlegt að menn geti aldrei haft sig í að skyggnast yfir sína pólitísku hundaþúfu.

Íslenska þjóðfélagið hefur tekið stórstígum framförum. Það hefur skapað okkur ný og algjörlega óþekkt færi. Við getum nú tekist á við viðfangsefni sem voru okkur svo gjörsamlega ofviða. Er skemmst að minnast þess hvernig íslenska hagkerfið í heild hefur ráðið við svo gríðarleg áföll sem skerðingu þorskafla, hvernig við höfum getað stóraukið framlög okkar til heilbrigðis og menntamála, samfara því að bæta lífskjör og stórhækka kaupmátt almennings.

Sem dæmi um stöðu okkar á þessum samanburðarskala þjóðanna má nefna, að velferðarríkið Danmörk, sem eitt sinn ríkti yfir okkur, vermir 14. sætið. Gamla breska heimsveldið er í 16. sætið, hin alþjóðlega fjármálamiðstöð Luxembourg er í því 18. Þýskaland sem menn kenndu einu sinni við efnahagsundur, er í því 22.

En við erum í því fyrsta, sem vekur þau viðbrögð helst í tilteknum ranni, að gera lítið úr og fara í stórfellda afneitun, eins og sá sem ekki vill viðurkenna raunveruleikann. Er þetta ekki dapurlegt?

Skýrslan segir ekki að allt sé í lagi í voru landi. Enda er það ekki þannig. Við vitum að fjölmargt má miklu betur fara, ekki síst á sviði byggðamála. En skýrsla Þróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna segir okkur að við búum í góðu samfélagi sem er í betri færum til þess að taka á slíkum viðfangsefnum, en aðrar þjóðir. Því eigum við að fagna.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband