29.11.2007 | 22:42
Svarið er auknar, fjölbreyttari og betri rannsóknir
Ég gerði grein fyrir nokkrum þeirra aðgerða sem snúa að sjávarútvegsráðuneytinu og við erum nú að hrinda í framkvæmd í kjölfar niðurskurðar á þorskafla í ræðu við upphaf þings Farmanna og fiskimannasambands Íslands, sem hófst í dag. Þegar litið er yfir sviðið er alveg ljóst að þessar aðgerðir eru af margs konar toga og eru hugsaðar sem viðbrögð við ábendingum margra þeirra sem hafa gegnrýnt ákvörðunina um niðurskurð aflaheimilda. Hér eru líka á ferð hlutir sem segja má að hafa komið fram vegna þeirrar umræðu sem fram hefur farið á umliðnum árum um fiskveiðiráðgjöfina meðal annars.
Það sem ég nefndi var meðal annars þetta:
Nú er verið að auka verulega fjármuni til hafrannsókna. Menn greinir á um áreiðanleika þeirra eins og sakir standa. En um hitt held ég menn séu þó sammála, að svarið sé ekki að draga úr þessum rannsóknum. Þvert á móti. Svarið er að efla þær á alla lund. Sérstaklega hafa menn fundið að því að forsendur og fyrirkomulag togararallsins sé orðið úrelt þing. Svar okkar er að leggja 150 milljónir aukalega á þriggja ára tímabili til að efla þessar grundvallarrannsóknir vegna stofnstærðarmatsins. Það er að mínu mati engin smáupphæð og enginn getur haldið því fram með rökum að það muni ekki um annað eins.
Hafrannsóknastofnunin hefur nú það verkefni að vinna að undirbúningi hins nýja togararalls, með sjómönnum og útvegsmönnum þ.e, þeim sem gleggst vita um þessi mál. Nýlega var skipað í faghóp um þetta verkefni. Af hálfu Farmanna og fiskimannasambandsins voru Páll Halldórsson og Birgir Sigurjónsson tilnefndir. Frá LÍÚ eru Guðmundur Kristjánsson og Kristján Vilhelmsson og frá LS er Arthúr Bogason. Þá sitja fjórir fulltrúar Hafrannsóknastofnunarinnar í hópnum, Björn Ævar Steinarsson, Höskuldur Björnsson, Þorsteinn Sigurðsson og Jón Sólmundsson sem leiðir starfið.
Enn fremur veit ég að á næstu dögum kemur saman samstarfshópur um þorskrannsóknir sem hefur á að skipa sérfræðingum frá Hafrannsóknastofnuninni og mönnum úr útveginum, þ.m.t. fulltrúum skipstjórnarmanna allt í kringum landið og af mismunandi skipum. Hópurinn hittist árlega á tveggja daga fundi til að ræða gang þorskveiðanna á árinu og horfur. Slíkt samráð er afar vel til þess fallið að auka samhljóm í atvinnugreininni sem nauðsynlegt er að skapa.
Þá vek ég athygli á því að með okkar sértæku aðgerðum verða rannsóknir fjölbreyttari. Verið er að styrkja þau sjávarrannsóknasetur sem komið hefur verið á laggirnar úti um landið sem og útibú Hafrannsóknastofnunarinnar. Sérstakur samkeppnissjóður á sviði hafrannsókna sem ég beitti mér fyrir strax og ég settist í stól sjávarútvegsráðherra haustið 2005, verður nú tvöfaldaður og áherslum sérstaklega beint að þorskrannsóknum.
Umsóknarfrestur vegna þessara rannsókna á yfirstandandi ári er liðinn og vænti ég mikils af því starfi. Þetta leiðir af sér tvennt: Í fyrsta lagi eykst fjölbreytni rannsókna og þeim ábendingum er mætt að opna þurfi fleirum leiðir en hingað til að hafrannsóknum hér við land. Í annan stað verður þetta til þess að við löðum fram aukið rannsóknafjármagn, sem á að geta orðið til að auka heildarumfang hafrannsókna við landið.
Þetta er aðeins hluti af þeim verkefnum sem við höfum efnt til á vettvangi Sjávarútvegsráðuneytisins. Margt annað mætti nefna, svo sem þær aðgerðir sem beinlínis var gripið til í framhaldi af ábendingum skipstjórnarmanna. Um það verður fjallað síðar, en um þessi mál má lesa í ræðu minni á þingi FFSÍ í dag.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook