3.1.2008 | 23:12
Ár áfalla og átaka
Ársins 2007 mun ég minnast sem árs áfalla og átaka í senn. Þetta einkenndi jafnt persónulega hagi sem og aðstæður í störfum mínum.
Fráfall vinar míns og náins samverkamanns Einars Odds Kristjánssonar var mikið áfall. Fyrir mig persónulega og vegna þess hve stórt skarð hann skilur eftir. En sjaldan er ein báran stök. Síðsumars lést einnig, frændi minn og vinur Ásgeir Þór Jónsson, mikill gjörvileika og efnismaður; ungur fjölskyldufaðir í blóma lífsins. Jafn sólríkt og yndislegt og sumarið okkar var, má segja að þessir atburðir hafi verið sem dimmur skuggi á björtum sumardögunum.
Slíkir atburðir gera eiginlega allt annað að hreinu hjómi. Þetta segir okkur hve lífið er fallvalt og kallar fram nauðsynlegt og óhjákvæmilegt endurmat á lífi og lífsháttum hvers og eins. Andlát þeirra beggja snart mig afskaplega djúpt og skilur eftir mikil sár. Mestur er auðvitað missir nánustu ættingja og við lok árs og á hátíð ljóss og friðar er hugur okkar hjá þeim. Blessuð sé minning þeirra beggja.
Árið var þó gott fyrir fjölskyldu mína að öðru leyti. Og á á árinu fögnuðum við sérlega ánægjulegum áfanga þegar Sigrún María dóttir okkar varð stúdent og hóf svo háskólanám í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands í haust.
Átakatími í starfi
Árið sem er að líða var mikill átakatími í starfi mínu. Kosningar voru haldnar í maí. Kosningabaráttan var hörð, en að kvöldi kjördags litum við sjálfstæðisfólk glöð fram á veginn og gátum státað af góðum árangri. Við breytingar á ríkisstjórn tókst ég á við nýja og vaxandi ábyrgð er ég var valinn af félögum mínum í þingflokknum til þess að gegna starfi sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra. Því nýja starfi hafði ég einungis gegnt í fáeinar vikur er mér var kunngerð svört skýrsla Hafrannsóknarstofnunar varðandi stöðu þorskstofnsins.
Ég stóð frammi fyrir afar erfiðum kostum. Almennt var talið að skera þyrftir niður heildaraflamagn. Ágreiningurinn var um hve mikið. Sú ákvörðun sem ég tók að lokum og öllum er kunn var vitaskuld umdeild, en í mínum huga var hún rökrétt í ljósi þeirra aðstæðna sem við stóðum frammi fyrir. Þetta er sannarlega mikið áfall, sem þjóðin öll verður að takast á við.
Því miður gerir þetta verkefnin í byggðamálum - mikilvægasta úrlausnarefni íslenskra stjórnmála nú um stundir - enn erfiðari, en jafn óhjákvæmileg engu að síður.
Til viðbótar tókst ég á við miklar breytingar á starfsvettvangi mínum, sem tók hug minn mjög, að vonum.
Af erlendum vettvangi er auðvitað margt tíðinda. Til lengri tíma hygg ég að nefna megi tvennt. Markverð og vaxandi umræða um umhverfismál og þær sviptingar sem hafa orðið á fjármálamörkuðum og hafa haft bein áhrif á afkomu okkar litla hagkerfis og alla landsmenn.
Ár breytinga og tækifæra
Árið 2008 verður tímabil breytinga og tækifæra. Á starfsvettvangi mínum blasir við mikil uppstokkun vegna skipulagsbreytinga sem þar eru að verða. Það er spennandi viðfangsefni. Við munum glíma við margvíslega örðugleika vegna minni þorskafla, en einnig sjá ný tækifæri verða til. Sjálfur er ég sannfærður um að við vinnum okkur út úr erfiðleiknum. Við höfum aldrei verið í betri færum til þess og eigum að hafa það umfram allt í huga að í breytingum felast tækifæri sem við eigum að vinna úr. Þess vegna eigum við horfa bjartsýn til framtíðar. Mörg gömul baráttumál okkar eru í höfn eða þokast vel áfram. Það kveikir með okkur nýjar hugmyndir að nýjum úrlausnarefnum. Slíkt kallast framfarahugur og þann þankagang og slíkt lífsviðhorf eigum við að tileinka okkur.
Meginflokkur: Pistlar | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook