22.1.2008 | 17:49
Gleðidagur í Bolungarvík
Fyrir okkur borna og barnfædda Bolvíkinga verður þessa dags, 22. janúar, einkanlega minnst fyrir að í dag voru opnuð tilboð í gerð Jarðganganna ( já með stórum staf og greini ! ) Hér er vitaskuld verið að tala um Bolungarvíkurgöngin sem liggja munu á milli Bolungarvíkur og Hnífsdals. Þetta er stór stund og vekur með okkur mikla gleði.
Tíminn líður hratt. Á fyrsta ríkisstjórnarfundinum sem ég sat, var ákvörðun tekin um að ráðast í þessi göng. Um það fjallaði ég í pistli á heimasíðunni. Þar með má segja að ísinn hafi verið brotinn. Í hönd fóru athuganir á fyrirhuguðu jarðgangastæði. Ýmsir kostir voru skoðaðir og að lokum komist að þeirri skynsamlegu niðurstöðu að láta göngin liggja á milli Ósbæjanna í Bolungarvík og að Skarfaskeri í Hnífsdal. Ákvörðunin um nýju Bolugarvíkurgöngin var svo innsigluð endanlega í Samgönguáætluninni sem Sturla Böðvarsson samgönguráðherra hafði alla forystu um og mælti fyrir á Alþingi. Þar með má segja að nær öllum hindrunum hafi verið rutt úr vegi og verkefni samgönguyfirvalda eftir það að vinna að því að koma þessari ákvörðun á framkvæmdastig.
Þetta verður gríðarlegt mannvirki. Um er að ræða 8,7 m breið, 5,1 km löng jarðgöng, byggingu um 310 m langra steinsteyptra vegskála, gerð um 3,0 km langra vega og byggingu tveggja um 15 m langra steinsteyptra brúa, eins og segir í tilkynningu Vegagerðarinnar. Jarðgöngin leysa Óshlíðina af hólmi; mikið mannvirki á sinni tíð, sem rauf á sínum tíma landfræðilega einangrun Bolungarvíkur og hefur verið byggð upp gríðarmikið síðustu árin.
En vegurinn um Hlíðina var mikill tálmi við tilteknar aðstæður og hefur hamlað vexti byggðarinnar. Nú opnast hin greiðasta leið á milli Bolungarvíkur og Ísafjarðarbæjar. Á löglegum hraða verðum við sennilega um 10 mínútur á milli; og helminginn af leiðinni undir þaki, ef þannig má að orði komast.
Það var sérstaklega ánægjulegt að finna þann stuðning og hlýhug sem hvarvetna birtist þegar ákvörðunin um nýju Bolungarvíkurgöngin var tekin. Ég vék einmitt að þessu í fyrrnefndum pistli á heimasíðunni. Þar sagði meðal annars: "Gamla bolvíska aðferðin að vinna án hávaða en með þrautseigju reyndist vel, eins og svo oft, fyrr og síðar. Þessu fögnum við Bolvíkingar. En það er ekki allt. Maður hefur fundið ótrúlegan stuðning við þetta mál úti í þjóðfélaginu. Ég hef varla hitt mann sem ekki hefur fært þetta í tal við mig upp á síðkastið. Og sem ég sit við gerð þessa pistils renna SMS sendingar með heillaóskum inn á símann minn. Þessi framkvæmd nýtur nefnilega ótrúlegs velvilja úti um allt þjóðfélagið. Fyrir það erum við afskaplega þakklátir, íbúar Bolungarvíkur."
Nú er einhverra vikna eða mánaða bið þar til framkvæmdir hefjast. Þar með verða stóraukin atvinnuleg umsvif á svæðinu, sem ætti að geta hleypt miklu lífi í atvinnulífið á svæðinu. Þetta skiptir máli og mikilvægt að menn reyni að nýta sér þessi færi sem best. Meginávinningurinn er þó sá að fá göngin, því þá skapast ótal tækifæri til þess að byggja upp á öðrum sviðum á norðanverðum Vestfjörðum.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook