31.1.2008 | 22:23
Fjögur þúsunda manna fækkun í sjávarútvegi
Þegar að er gáð þá kemur í ljós að fækkun starfsfólks í sjávarútvegi undanfarin ár hefur verið stöðug. Ekki er því um að kenna að skorið hafi verið svo hraustlega niður í aflaheimildum á þessum tíma að það geti skýrt þróunina. Við vitum hins vegar að bætt skipulag fyrirtækjanna, aukin tækniþróun, sem sagt framfarir og aukin framleiðni vinnuafls, ráða þarna mestu um.
Hagstofan heldur utan um talnaefni um starfsfólk eftir atvinnugreinum. Fróðlegt er að sjá tölur yfir síðustu árin. Því miður ná tölurnar ekki nema til ársins 2005 og er það sannarlega bagalegt. Engu að síður sjáum við skýr merki um þróunina með því að líta á tölulegu þróunina.
Árið 1998 unnu um 14.700 manns í sjávarútvegi, - fiskvinnslu og fiskveiðum, - á landinu öllu. Nú er þessi tala komin oní 10.800. Fækkun um tæplega fjögur þúsund á ekki lengri tíma. Fækkun starfsfólks í fiskveiðum nemur um 2.300 og um 1.600 í fiskvinnslunni.
Slá verður örugglega einhverja varnagla þegar einstök ár eru skoðuð. Þetta eru þó tölur þeirrar stofnunar okkar sem mesta vigt hefur á sviði tölfræðilegra upplýsinga á þessum sviðum. Því er eðlilegt að við styðjumst við þessar tölur til þess að skoða þróunina til lengri og skemmri tíma. Athyglisvert er í þessu sambandi að kanna tölur frá árunum 1998 og 1999. Samkvæmt tölum Hagfstofunnar fækkaði starfsfólki í fiskvinnslu um 800 manns og síðan 600 manns á milli áranna 1999 og 2000.
Og þá vaknar spurningin. Hver var þróunin í aflamarki á þorski, okkar helstu nytjategund, á þessum árum? Því er skemmst frá að segja, að afar litlar breytingar urðu í aflamarkinu, en samt fækkaði starfsfólkinu svo mikið. Í ljósi umræðu síðustu daga má kannski spyrja hvort þessa fækkun starfsfólks megi líka rekja til skerðingar aflamarks á því herrans ári 2007?!!!!!
Ennfremur er afskaplega athyglisvert að á sama tíma og starfsfólkinu í fiskvinnslunni fækkaði þá hækkuðu heildarlaunin, þó þau hafi hins vegar lækkað í fiskveiðum; afar misjafnlega samt eftir landshlutum.
Nú tala sumir í hinni opinberu umræðu þannig að auðvelt sé að bregðast við uppsögnum í sjávarútvegi. Skollið er á yfirboðskapphlaup tveggja stjórnmálaflokka sem boða hókus - pókuslausnir sem allir vita þó að lítil innistæða er fyrir. Við sjáum hins vegar af hinni talnalegu þróun, að tilhneigingin er alveg skýr. Hin undirliggjandi þróun blasir við. Fækkun starfa og uppsagnir núna verða sannarlega að hluta raktar til minni aflaheimilda í þorski. En alls ekki að öllu leyti. Um það vitnar fortíðin og reynslan.
Og reynslan er jafnan ólygnust.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook