Gravel er minn maður

Mike GravelÁ síðu Egils Helgasonar, Silfri Egils, er hægt að nálgast próf sem gefur til kynna hverjum hinna bandarísku forsetaframbjóðenda maður eigi mesta pólitíska samleið með. Þetta var eins konar krossapróf, í fjórtan tölusettum liðum. Þó játa beri að ekki voru allir efnisflokkarnir ofarlega í sinni mínu, þá freistaðist ég til þess að fara í gegn um allt prófið og fékk svo niðurstöðuna.

Minn maður er Mike nokkur Gravel, sem ég hafði aldrei nokkru sinni heyrt um, né séð nokkuð til hans. Strax í kjölfar hans fylgdi sá áhrifamikli ræðusnillingur Barak Obama, og síðan hlið við hlið Hilary Clinton og John McCain. Frjálshyggjumaðurinn Ron Paul kom þar næst og gladdi það mitt gamla frjálshyggjuhjarta að eiga þó einhverja samleið með honum. Lestina ráku svo hinir íhaldssömu Mike Huckabee og Mitt Romney. Það kom sjálfum mér lítt á óvart. Skoðanir þeirra eru svo víðsfjarri skoðunum verulegs hluta Íslendinga og sjálfsagt á hið sama við um drjúgan hluta Vestur Evrópubúa.

En hver er hann þessi Mike Gravel? Á því lék mér mikil forvitni. Satt best að segja var ég allt eins þeirrar skoðunar að Gravel þessi væri hreinn tilbúningur, en svo mun þó ekki vera.

Gravel var fæddur í Massachusettes fylki í Bandaríkjanna árið 1930, en flutti til Alaska á sjötta áratugnum og haslaði sér þar völl í stjórnmálum. Hann var kjörinn á þing Alaska og varð að lokum þingforseti. Kjörinn var hann til setu í Öldungadeild Bandaríkjaþings árið 1968 og sat til ársins 1980.

Án þess að hirða um að rekja feril hans, sem tíðum hefur augljóslega verið nokkuð skrautlegur, skal fernt þó nefnt. Hann barðist fyrir afnámi herskyldu í Bandaríkjunum; máli sem var ofarlega á baugi í Víetnamstríðinu. Þó ekki fengi hann sínu framgengt að sinni var herskyldan að lokum afnumin.

Í öðru máli var hann líka áberandi.  Bygging umdeildrar olíuleiðslu til Alaska mætti gríðarlegri andstöðu umhverfisverndarssamtaka og á bandaríkjaþingi. Þar sneru þeir bökum saman, hann og Ted Stevens þingmaður frá Alaska sem hefur reynst okkur Íslendingum vel meðal annars í hvalamálum, eins og fleiri Alaskabúar, og höfðu sigur. Leiðslan var lögð Alaskabúum til mikilla hagsbóta.

Þá má nefna að hann gat sér frægðar fyrir að hafa hótað að gera svonefnd Pentagon skjöl opinber, en þau  höfðu að geyma leyndardóma um Víetnamstríðið. Hótaði Gravel að lesa skjölin, sem voru 7 þúsund blaðsíður, í Öldungadeildinni og koma þeim þannig á framfæri.

Loks gaf hann kost á sér sem varaforsetaefni Demókrata árið 1972, en gjörsamlega árangurslaust

Þetta er sem sé minn maður í bandarísku forsetakosningunum, samkvæmt fyrrgreindu krossaprófi, sem ég lýsi hér með algjörlega óhæft til þess að draga mig inn í dilka forkosninganna þarna vestra !!




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband