14.2.2008 | 08:25
Atvinnulífið kallar alls ekki á ESB aðild
Niðurstaða Viðskiptaþings varðandi evrumál í gær var kannski ekki frumleg. En hún skipti samt miklu máli. Það má heita að öllum hafi verið ljóst eftir umfjöllun á Viðskiptaþingi í gær að við Íslendingar stæðum bara frammi fyrir tveimur kostum varðandi gjaldeyrismálin. Áframhaldandi krónu eða upptaka evru, að undangenginni aðild að ESB og EMU.
Það er að vísu nærri komið ár síðan við bentum á þetta í skýrslu Evrópunefndar, Tengsl Íslands og Evrópusambandsins ( bls 90) En samt hafa einhverjir haldið áfram að tala eins og aðrir kostir séu í boði og þannig talaði einn fyrirlesaranna á Viðskiptaþinginu í gær, prófessor Portes.
Það var hins vegar skotið rækilega niður af Jurgen Stark stjórnarmanni í Evrópska Seðlabankanum. Vonandi skýrist þá umræðan og menn rata aftur út af villigötunum.
En fleira gerðist á Viðskiptaþingi. Þar var meðal annars kunngerð viðhorfskönnun á meðal félaga í Viðskiptaráði um Evrópumál og tengda hluti. Þarna gat að líta athyglisverða hluti. Sérstaklega í ljósi þess að mjög hefur verið haldið á lofti því sjónarmiði að í atvinnulífinu - og þá ekki síst félagar innan VÍ - séu óðir og uppvægir að ganga í Evrópusambandið. En er þetta svo?
Þarna voru forsvarsmenn aðildarfélaganna spurðir. Og svarið er skýrt. Menn hafna aðild að Evrópusambandinu. 31,7 prósent vilja ganga í Evrópusambandið, 17,7 % taka ekki afstöðu en 50,5% eru því andvíg. Þetta er afskaplega afgerandi og lóst að ef þeir eru teknir frá sem ekki taka afstöðu nálgast þau 60% innan VÍ sem ekki vilja ESB aðild.
Hitt er svo athyglisvert að VÍ félagar vilja að meirihluta kasta krónunni og taka upp annan lögeyri; flestir evru. Hins vegar má sjá að margir hafi talið þann kost í stöðunni að taka upp aðra mynt án þess að ganga í ESB. Það blasir því við að loknu Viðskiptaþingi að slíkt er ómögulegt og því má ætla að viðhorf manna breyttist fyrir vikið, í ljósi þess að meirihluti félagsmanna VÍ er andsnúinn ESB aðild.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook