Sum orð eru of dýr til þess að nota þau

BrekkukotsannállÞað væri heillaráð að koma fyrir eintaki af Brekkukotsannál eftir Halldór Laxness í einkaþotunum sem löngum prýða Reykjavíkuflugvöll um þessar mundir. Þetta er sagt vegna þess að í þeirri bókmenntaperlu getur að líta hin fleygu orð; "Í Brekkukoti voru orðin of dýr til þess að nota þau - af því þau þýddu eitthvað; okkar tal var einsog óverðbólgnir peníngar:"

Á sama tíma og atvinnulífið siglir krappan dans og orð sem hrjóta af vörum stjórnmálamanna og áhrifamanna í atvinnulífi eru lesin, krufin og út af þeim lagt, er eins gott að vanda orðfæri sitt, þegar kemur að því að fjalla um svo vandmeðfarna hluti sem hin djúpu tilvistarrök efnhagsgangverksins.

Hver á fætur öðrum koma menn og segja að ímynd landsins skipti máli og geti hreinlega haft áhrif á viðskiptakjör okkar. Jón Ásgeir, einn helsti og áhrifamesti kaupsýslumaður landsins segir landið okkar búa við ímyndakreppu og væri gaman að vita hvernig sú kreppa hafi orðið til. Líka af því að nýleg ummæli um fjárhagslega stöðu bankanna voru kannski ekki alveg beinlínis fallin til að bæta þessa ímynd. Þau orð voru því miður ekki byggð á misskilningi okkar sem lásum þau og heyrðum. Misskilningur var það sem sé ekki, en mistök svo sannarlega og þá er bara að viðurkenna það. Það er stórmannlegast.

Þegar gefur svona á bátinn í viðskiptalífinu er þess vegna eins gott að menn gangi fram af fyllsta gagnsæi og gefi ekki færi á neinum efasemdum um að allt sé með felldu. Það verður að liggja algjörlega fyrir að allir séu jafnir; stórir sem litlir hluthafar. Þegar stór hluthafi kaupir hlutabréf með fjórðungsafslætti frá markaðsverði og annar er síðan keyptur út á yfirverði í kjölfarið vakna spurningar. Eðlilega.

Einnig þegar út spyrst að hægt sé að lækka rekstrarkostnað fyrirtækis í Kauphöllinni um meira en helming. Þá spyr hinn litli hluthafi (og sá stóri örugglega líka); hvað voru stjórnarmenn að aðhafast, til þess að gæta hagsmuna okkar? Sé hægt að lækka rekstrarkostnað um milljarða vaknar hin eðlilega spurning um ástæður þess að rekstrarkostnaðurinn var svona hár í fyrstunni.

Þetta er nefnilega spurning um ímynd, það er mikið rétt. En einnig um fleira. Hluthafar verða að geta treyst upplýsingum og einnig því að upplýsingar séu veittar. Ella skapast tortryggni sem ekki má eiga sér stað í opnum félögum, þar sem hagsmunir margra eru svo ríkir. Allra síst núna, þegar þörf er á trausti.

Það er nefnilega þannig þegar allt kemur til alls að atvinnulífið hefur miklar skyldur. Bæði gagnvart sjálfum sér, en einnig  fólkinu sem hefur lagt eigur sínar að veði, í trausti á stjórnendur og í trausti þess að upplýsingarnar sem berist séu gagnsæjar og áreiðanlegar.

 




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband