Mótsagnakenndar efnahagsaðstæður

Einkaneysla blómstrarStaða efnahagsmála er ákaflega mótsagnakennd. Það þarf ekki að hafa mörg orð um það að fjármögnunarvandinn á alþjóðamörkuðum er fyrir löngu farinn að setja svip sitt á fjármálalífið hér á landi sem annars staðar. Allir vita að það þrengir að lánsfjármögnun og umsvif á ýmsum sviðum hafa dregist saman.

Skemmst er að minnast þess að mikið hefur dregið úr fasteignaviðskiptum. Hagtölur sýna það. Nú sér fyrir endann á miklum framkvæmdum í tengslum við uppbygginguna fyrir austan vegna álversins. Það minnkar umsvif. Og í raun er þetta hollt. Við vitum að þenslan var of mikil. Þar hafði kúplast margt saman í einu; stórframkvæmdir vegna stóriðju, gríðarleg umsvif í tengslum við fasteignamarkaðinn, fjárfestingar opinberrra aðila og síðast en ekki síst gríðarlegar fjárfestingar einkafyrirtækja og einstaklinga, sem birtast manni í frumskógi byggingakrana út um allt höfuðborgarsvæðið. Eitthvað er farið að grisjast í þeim skógi.

Þrátt fyrir að við vitum að þrengst hafi um á fjármagnsmarkaði, eru enn gífurlega mikil umsvif í efnahagslífinu. Fyrirtækin eru þó farin að hægja á sér. Einstaklingar sömuleiðis. Í pípunum eru á hinn bóginn heilmiklar framkvæmdir af öllu tagi. Þær bremsast aldrei niður svona einn, tveir og þrír.

Svo eru opinberir aðilar með mikil umsvif. Við ákváðum að auka framkvæmdir  ríkisins á þessu ári til þess að vega gegn samdráttaráhrifum sem ella hefðu orðið vegna minnkandi umsvifa. Nú vitum við að tímasetningin er rétt, líkt eins og við héldum fram. Þegar þessara framkvæmda verður farið að gæta má ætla að dregið hafi  úr öðrum umsvifum, eins og hagspár segja. Auk þess sem samdráttur vegna minni þorskafla verður farinn að vega þyngra..

En stóra mótsögnin í þessu öllu saman er að einkaneysla blómstrar og blómstrar. Kreditkorta og debetkortanotkun eykst á milli mánaða. Ekki getur það allt skýrst af jólaeyðslunni, eins og einhver var með tilgátur um í kring um áramótin. Þá er vaxandi bílainnflutningur og íbúðaverð hækkar áfram - þó í minni mæli sé - þrátt fyrir spár um annað.

En kjarni málsins er þá þessi: Þrátt fyrir erfiðleika, er efnahagsgrundvöllurinn sterkur. Góðir kjarasamningar eru að baki. Fjármálamarkaðurinn hefur eflst, fólk hefur aukið eignir sínar og tekjur. Fyrirtæki eru fjölþættari og síðast en ekki síst  eigum við firnasterkan ríkissjóð og mikinn gjaldeyrisforða. Við ráðum við mótblástur og aðgerðir ríkisvaldsins í tengslum við kjarasamninga eru til þess fallnar að bæta grundvöll atvinnulífsins.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband