5.3.2008 | 22:07
Sproksett ei meir
Spurningin um matvælaöryggi kom upp í ræðum okkar þriggja sem töluðum við setningu Búnaðarþings, Ólafs Ragnars Grímssonar forseta Íslands, Haraldar Benediktssonar formanns Bændasamtakanna og mín. Umfjöllun okkar kallaði á all nokkrar umræður í fjölmiðlum. Hér fer á eftir kafli úr ræðu minni sem um þessi mál fjallaði
"Öryggi matvæla verður nú sem sagt æ þýðingarmeira og það er af sem áður var þegar menn reyndu að hlæja út af borðinu alla umræðu sem fram fór hér á landi um matvælaöryggi þjóðarinnar. Menn sáu fyrir sér stórar frystigeymslur fullar af fiski og kjöti og spurðu í forundran, hvort við Íslendingar þyrftum að velta fyrir okkur hugtakinu matvælaöryggi að þessu leytinu. Víðast hvar um heiminn eru menn hættir að sproksetja slíkar umræður. Þær eru dauðans alvara. Spurningin er ekki lengur sú hvernig eigi að koma í lóg öllum þeim matvælum sem framleidd eru í heiminum. Heldur er spurningin þessi: Hvernig ætlar landbúnaðurinn og aðrir matvælaframleiðendur að anna þeirri miklu eftirspurn sem nú er um allan heim eftir matvöru. Þessi umræða hefur auðvitað líka áhrif hér á landi. Það er ekki ólíklegt að þróun matvælaverðs í heiminum hafi margvísleg áhrif á matvælaframleiðslu hér. Líklegt má telja að hlutfallslegar breytingar á verði á matvælum leiði til þess að samkeppnisstaða íslensks landbúnaðar almennt verði betri. Þegar sjást ýmis teikn um þetta, þrátt fyrir hækkandi verð á aðföngum. Til viðbótar eykst stöðugt skilningur á mörkuðum á nauðsyn þess að framleiða hreina og heilnæma vöru. Oftar en ekki er spurt um uppruna vörunnar og gæði og þar höfum við Íslendingar ekkert að fela, öðru nær, í því felst okkar styrkur.
Langt hagvaxtarskeið með stöðugri kaupmáttaraukningu hefur fært íslenskum bændum stærri markað en áður. Í þessu felast heilmikil tækifæri sem tvímælalaust á að reyna að nýta. Samtímis hefur verið unnið með markvissari hætti en áður að útflutningi bæði á kjöti og mjólkurvörum þar sem hollusta, gæði og heilbrigðir framleiðsluhættir eru lagðir til grundvallar. Því miður hefur gengisþróunin á margan hátt tafið þetta mikilvæga starf, en þó felast þarna ýmis tækifæri. Við Íslendingar getum því litið svo á, að aukin fríverslun færi landbúnaðinum tækifæri eins og við höfum séð á undanförnum árum. Gagnkvæmir tollkvótar Íslands og Evrópusambandsins eru gott dæmi um það. Þeir hafa fært okkur möguleika á nýjum sviðum, sem vonandi getur orðið frekara framhald á.
Það er einnig ánægjulegt fyrir einn sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra að skynja hvar hagsmunirnir liggja sameiginlega hjá þessum atvinnugreinum, sjávarútvegi og landbúnaði. Báðar byggja atvinnugreinarnar á matvælaframleiðslu. Báðar framleiða þær úrvalsvöru. Báðar geta vísað með stolti til hreins uppruna vörunnar. Báðar nýta náttúruauðlindir með sjálfbærum hætti."
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook