19.3.2008 | 08:57
Gefið og tekið
Í þeirri miklu efnahagsbrælu sem nú gengur yfir heimsbyggðina koma enn á ný upp í hugann orð Björgólfs Thors Björgólfssonar sem hann lét falla í viðtali við áramótablað Viðskiptablaðsins: "Að hluta til má segja að fólk hafi of mikið horft á fjármálamarkaðinn og um leið fjármálafyrirtækin og því gleymt rekstrarfélögunum. Núna held ég að það muni breytast og áherslan verði á þau fyrirtæki sem skila hagnaði og skapa verðmæti".
Þetta eru greinilega orðin áhrínsorð. Ólgusjóirnir svipta til jafnt alþjóðlegum stórfyrirtækjum og hagkerfum. Hinir miklu kraftar sem eitt sinn toguðu allir í eina átt, í krafti mikils aðgengis að ódýru fjármagni, líkjast núna helst mikilli brælu til sjós, þar sem brotsjóirnir koma að úr öllum áttum. Þetta sjáum við allt í kring um okkur út um allan heim.
Í þessu ástandi eru upp runnir tímar mikillar tekjumyndunar fyrir rekstrarfélög á Íslandi sem stunda útflutning.
Þó svo að veiking krónunnar hafi verið bæði kærkomin og löngu tímabær, felur hið mikla fall í sér mikla ógn. Um það má hafa langa upptalningu, en nægjanlegt er í sjáfu sér að nefna verðlagsáhrifin. Og mikilvægt er að undirstrika að enginn gerir lítið úr þeim háska sem steðjar að í efnahagslífi heimsins við þær miklu sviptingar sem orðið hafa.
En jafnvel þarna glittir auðvitað líka í jákvæða þætti sem sjálfsagt er líka að halda til haga.
Gleymum því ekki að við erum útflutningsþjóð, með agnarsmáan heimamarkað. Gengisfellingin skapar því ekki bara tap, eins og ætla má af umfjöllun. Hún stóreykur tekjur fjölmargra atvinnugreina.
Sjávarútvegur er skýrasta dæmið sakir stærðar sinnar í efnahagslífinu. Ofan í umtalsverðar verðhækkanir á ýmsum sjávarafurðum (alls ekki öllum þó, því miður) eykur veikari króna tekjur greinarinnar. Sveinn Hjörtur Hjartarson hagfræðingur LÍÚ taldi í viðtali við RÚV í gær að ávinningurinn miðað við núverandi stöðu gengisins væri um 25 milljarðar; sem er vel að merkja mjög umtalsvert hærri tala, en nam áætluðum tekjubresti vegna þorskaflaskerðingarinnar. Hér er þó nauðsynlegt að slá þann varnagla að fáir ef nokkrir gera ráð fyrir að þetta gengisstig haldist til nokkurrar frambúðar. Það skiptir líka máli að þessi þróun kemur beint ofan í loðnuvertíð; framleiðsluafurðirnar verða seldar á hagstæðu gengi og skila því hærri tekjum inn til fyrirtækjanna.
Sama lýsing á við um stóriðju, ferðaþjónustu, ýmsar tæknigreinar; og yfirhöfuð allar samkeppnis- og útflutningsgreinar. Þær hafa framundan þessu með réttu kvartað undan of sterku gengi. Og þó öllum sé ljóst að svona ýktar gengissveiflur séu engum til góðs til lengdar, er óneitanlegt að þær spýta miklum tekjum inn í íslenskt þjóðarbú.
Björgólfur Thor hefur nefnilega hitt naglann á höfuðið, eins og svo oft. Orðin sem vitnað var til í upphafi eru orð að sönnu.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook