23.3.2008 | 17:21
Ómissandi hátíð og öflugri Skíðavika
Fólkið streymdi að strax upp úr kl. 7 niðrí skemmunni hans Aðalsteins Ómars, niður við höfn á Ísafirði. Hafnarstjórinn var vitaskuld mættur til leiks; Muggi sem setti hátíðina með nokkrum vel völdum orðum og kynnti fyrstu hljómsveitina til leiks. Þar með byrjaði þéttur tónlistarflutningurinn á hinni rómuðu hátíð, Aldrei fór ég suður sem stóð þindarlaust til miðnættis og hófst síðan um miðjan dag á laugardag og var fram yfir miðnættið.
Maður skynjaði að hátíðin var í nánd með því að aka eða ganga um götur ( og gangstéttir) Ísafjarðar. Ungt fólk sem skar sig úr með yfirbragði sínu, en kurteislegri framkomu, fyllti stræti og torg og boðaði nærveru hinnar miklu hátíðar. Þetta einstaka framtak þeirra feðga Arnar Elíasar Guðmundssonar og Guðmundar Magnúsar Kristjánssonar, sem landsmenn þekkja sem Mugison og Mugga föður hans hefur fyrir löngu fest sínar kyrfilegu rætur í alþýðumenningu landsins og aukið hróður Ísafjarðar og Skíðavikunnar. Enginn sem vill láta taka sig alvarlega í tónlist eða tónlistaráhuga lætur þessa góðu hátíð framhjá sér fara sem hefur meira að segja hlotið sjálfa Eyrrarrósina við hátíðlega athöfn á Bessastöðum.
Ég missti að vísu af Listaskáldinu góða, Megasi, en bætti mér það aðeins upp með því að fara inn á heimasíðu hátíðarinnar, aldrei.is og hlustaði á afrek hans. Hins vegar mætti ég samviskusamlega til þess að njóta tónlistarflutnings Eivarar og síðan Karlakórsins Ernis og Óttars Proppé, sem fjölmiðlar kölluðu hátind hátíðarinnar. Það gladdi mitt gamla karlakórshjarta og ég samgladdist öllum þeim stóra hópi vina minna sem syngja í þessum stórgóða karlakór. Við náðum að vísu aldrei svona langt þegar ég söng á sínum tíma í þessum góða kór og það er ekki fjarri því að mig dreymi dagdrauma um að eiga afturkvæmt í kórinn.
En það var dálítið sérkennilegt að vera þarna viðstaddur hátíðina miklu í hópi gríðarlegs fjölda, upplifa kátur og glaður fínan tónlistarflutning og fíla hann vel og gera sér síðan grein fyrir að hinir virðulegu, miðaldra karlar sem skipa Karlakórinn Erni eru menn af minni kynslóð, en hinir ungu frísku strákar sem á undan komu og eftir all miklu yngri ( svo ekki sé nú tekið dýpra í árinni) En þetta sýnir að gott rokk þekkir engin kynslóðabil, heldur rýfur þau.
En aðalatriðið er þá þetta. Skíðavikan á Ísafirði er frábær áratuga hefð sem hefur nú gengið í kröftuga endurnýjun lífdaga með þessari frábæru hátíð. Fjölþætt dagskrá, frábær aðstaða til skíðaiðkunar og helgi páskanna helst vel í hendur og er einhvern vegin algjörlega ómissandi þáttur hvers ár, í lífi okkar heimamanna.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook