Þrír fundir á tveimur dögum

Fullt hús á fundi á ÍsafirðiVið sjálfstæðismenn nýttum kjördæmadagana vel í síðustu viku. Við blésum til funda víða um land og fengum þannig tækifæri til þess að hitta fólk að máli á opnum stjórnmálafundum. Þessir fundir féllu vel on í fundaprógramm okkar þingmanna Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi.

Ég sótti þrjá fundi þessa tvo daga. Á þriðjudagskvöld var ég með Kjartani Ólafssyni alþm á fundi á Hvolsvelli, þar sem umræður voru að sjálfsögðu um matvælafrumvarpið. Daginn eftir fórum við Geir H. Haarde á fund í hádeginu í Varmahlíð í Skagafirði. Þar voru málin rædd nokkuð almennt en þó var mikilli athygli beint að matvælafrumvarpinu, enda skiptir efni þess miklu máli fyrir héraðið.

Við Geir ókum svo af stað vestur til Ísafjarðar, skoðuðum framkvæmdir sem eru miklar á mörgum sviðum um þessar mundir. Á Ísafirði hittum við Herdísi  Þórðardóttur alþm. og sátum mjög fjölmennan fund á Ísafirði, þar sem umræðuefnin voru af mörgum toga.

Daginn eftir fórum við út í Bolungarvík á meðan við biðum flugs; á því var nokkur töf vegna þoku - sem er mjög óalgengt hjá okkur fyrir vestan. Við skoðuðum fyrirhugað jarðgangastæði, heimsóttum nýjan bæjarstjóra Elías Jónatansson á fyrsta starfsdegi hans, og hittum fólk á förnum vegi, meðal annars þau Hálfdán Einarsson fyrrv. skipstjóra og Hildi Einarsdóttur.

Þetta voru góðir og afkastamiklir dagar og sýndu enn einu sinni gildi þess að eiga fundi.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband