Ábyrgðarlausar kröfur

Sjómenn mótmælai í BrusselMótmæli franskra sjómanna og útgerðarmanna og nú síðar starfsbræðra þeirra í nokkrum ESB löndum vegna olíuverðhækkana gefa okkur innsýn inn í þann hugarheim sem umlykur sjávarútvegsstefnuna sem fylgt er í ýmsum löndum. Þegar verðhækkanir dynja yfir á tilteknum aðföngum er kallað eftir ríkisstyrkjum. Það þarf ekki að koma á óvart í löndum þar sem ekki er litið til sjávarútvegs sem alvöru atvinnugreinar.

Hækkun aðfanga þar með talið olíu mun hafa afleiðingar í för með sér fyrir sjávarútveginn. Við þær aðstæður er ekki óeðlilegt að menn leiti allra leiða til þess að stuðla að verðlækkunum, svo sem eins og með því að horfa til opinberrar skattlagningar. Það er að vísu ekki einfalt mál og lýtur líka að spurningum á sviði umhverfismála og útblásturs á óæskilegum efnum, eins og allir þekkja.

En mótmæli fiskimannanna í Frakklandi og víðar snúast ekki um þetta. Þar á bæ er kvartað yfir því að ekki sé strax brugðist við með niðurgreiðslum.

Við Íslendingar höfum unnið gegn niðurgreiðslum í sjávarútvegi og flutt fram margvísleg rök. Meðal annars þau að niðurgreiðslurnar stuðli að því að menn stundi rányrkju. Haldi úti skipum til veiða úr stofnum langt umfram afrakstursgetuna og það geti menn með opinberum stuðningi. Þegar fiskistofnar minnka verður veiði úr þeim almennt óhagkvæm. Við slíkar aðstæður er ríkisstyrkur stórhættulegur og algjörlega ábyrgðarlaus.

Hér er nauðsynlegt að vísa til þess sem ég gerði meðal annars að umræðuefni í Sjómannadagsræðunni minni, þar sem ég dró upp mynd af íslenskum sjávarútvegi sem alvöru atvinnugrein og sjávarútvegi í ýmsum öðrum löndum sem ekki lýtur slíkum lögmálum. Í ræðunni sagði ég meðal annars:

"Þegar þessi mál eru rædd er afar mikilvægt að undirstrika að sjávarútvegur okkar er undirstöðuatvinnugrein sem verður að lúta sömu hagræðingarkröfum og aðrar atvinnugreinar. Ella verður hann einfaldlega undir og laðar ekki til sín það fólk sem hann þarf á að halda. Víða um heim má einmitt sjá dæmi um sjávarútveg sem orðið hefur þeim örlögum að bráð. Sjávarútveg sem ekki hefur verið álitin alvöru atvinnugrein og er því ekki áhugaverður sem vettvangur lífsstarfs."




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband