24.6.2008 | 22:43
Látið sem ekkert sé
Ekki þarf að lesa mikið í erlendum blöðum, eða hlusta mikið á erlendar sjónvarpsstöðvar til þess að uppgötva að vandamálin sem við er að etja í þróuðum löndum Vestur Evrópu í efnahagsmálum eru býsna lík því sem við glímum við. Stutt dvöl í Bretlandi á dögunum færði mér heim sanninn um þetta.
Forsíðufréttir stórblaðanna sögðu okkur frá kunnuglegum vandamálum. Lausafjárskortur í fyrirtækjum, lánsfjárskortur í bönkum. Aðgengi að lánsfé takmarkað og það sem fáanlegt er fæst á ofurvöxtum sem fyrirtækjum eru óárennileg.
Þetta þekkjum við af fjármálafréttum á Íslandi. Þetta eru frásagnir í nágrannalöndum okkar.
Jafnvel breska sterlingspundið sem oft hefur verið ankeri á alþjóðlegum gjaldeyrismarkaði glímir við mótvind. Svo ekki sé nú getið um bandaríkjadalinn, þá alþjóðlegu mynt sem nú siglir um brælusjói alþjóðlegs ofviðris á efnahagssviðinu. Þó eru menn ekki á þeim bæjum að tala um að leggja niður þessar myntir til að taka upp evru!! - Hér á landi tala sumir um slíkt, jafnt þegar krónan er veik og þegar hún er sterk.
Þegar allt þetta er haft í huga er stórfurðulegt að hlýða á málflutning þeirra sem reyna allt til þess að gera sem minnst úr áhrifunum af þessum örðugu alþjóðlegu skilyrðum, á þróun efnahagsmála hér á landi. Fyrir þá væri kannski ómaksins vert að líta í svo sem eitt erlent dagblað, eða kíkja á svo sem einn fréttatíma í alþjóðlegum fréttaveitum, til þess sjá hvaða augum er litið á þróun alþjóðlegra efnahagsmála.
Þá er kannski von að augu manna ljúkist upp; nema auðvitað að málflutningurinn sé einber leikaraskapur. Menn viti betur og líti á það sem einhvers konar leiktjöld í dramastykki að láta sem þeir viti ekki af því sem fer fram utan landsteinanna. - Það gæti svo sem vel verið og væri eftir öðru.
Látalæti eru í sjálfu sér ekki neitt fyrirbrigði í pólitískri umræðu. En það er alltaf verra þegar slíkt er viðhaft þegar rætt er um alvörumál. Við ættum að muna að við erum ekki eyland í pólitískum eða efnahagslegum skilningi. Það sviptir okkur vitaskuld ekki ábyrgð að taka á málum, enda hafa stjórnvöld ekki gert það. En að minnsta kosti er lágmarkið að menn viðurkenni staðreyndir sem blasa við og eru til opinberrar umræðu úti í hinum stóra heimi og allir gera sér grein fyrir, þó hér á landi telji sumir sér henta að sniðganga.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook