Í átt til jafnvægis

BarrarFlestir hafa verið sammála um að einn af hættuboðunum í íslensku efnahagslífi hafi verið viðskiptahallinn. Við vissum auðvitað að á meðan umfang stórframkvæmda væri hvað mest og uppgangur efnahagslífsins hvað mestur, myndum við búa við viðskiptahalla. Með fjárfestingum í áliðnaði fyrir austan og á Grundartanga var lagður grundvöllur að auknum útflutningstekjum, sem skipta auðvitað miklu máli nú og til framtíðar litið.

Nær allir sem tjáð hafa sig um efnahagsmálin hafa lagt á það áherslu að viðskiptahallinn yrði að minnka. Það gerist með tvennu, svo augljóst það er. Í fyrsta lagi með auknum útflutningstekjum og hins vegar með minni innflutningi.

Lækkun gengisins nú eykur tekjur á útflutningshliðinni, en dregur líka úr innflutningi. Það hefur verið að gerast síðustu mánuðina.

Nú hafa birst fréttir af því að hinn mikli halli sem hefur verið á vöruskiptum okkar sé nú sem óðast að hverfa. Það segir okkur að jafnvægið í þjóðarbúskapnum sem nær allir hafa kallað eftir er að verða til. Til þess að þetta jafnvægi næðist, var öllum ljóst sem að þessum málum gáfu gaum, að draga þyrfti úr innflutningi. Metinnflutningur á bílum og hvers konar neysluvörum hlaut að taka endi. Það er nú að eiga sér stað.

Nú hljóta þeir því að fagna sem hafa talað fyrir því að jafnvægi í vöruskiptum / viðskiptajöfnuði yrði að verða. Það á ekki síst við um stjórnmálamenn í stjórnarandstöðu, hagsmunasamtök, hagfræðinga og álitsgjafa.

Í fréttum Glitnis í dag, er einmitt vikið að þessari þróun undir fyrirsögninni Vatnaskil í vöruskiptum. Þar segir orðrétt:

"Horfur eru á að vatnaskil séu orðin í viðskiptum með vöru og þjónustu við útlönd, og að tímar mikils halla á slíkum viðskiptum séu nú að baki í bili. Þar leggjast á eitt stóraukin framleiðslugeta álvera, hátt verð okkar helstu útflutningsvara á alþjóðamörkuðum og snarpur samdráttur í innlendri eftirspurn vegna versnandi efnahagshorfa, ásamt gengisþróun sem að öðru jöfnu ætti að bæta samkeppnisstöðu útflutningsgreina og draga úr eftirspurn eftir innfluttum vörum og þjónustu. Vöruskiptahalli mun að okkar mati verða lítill á næstu misserum í samanburði við það mikla ójafnvægi sem einkennt hefur utanríkisviðskipti undanfarin ár."

Þetta eru athyglisverð orð sem túlka vel þá (sársaukafullu) þróun í átt til jafnvægis sem mjög hefur verið kallað eftir.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband