Vel heppnuðu Landsmóti lokið

Hópreið á Landsmóti hestamannaNú er lokið vel heppnuðu Landsmóti hestamanna. Talið er að um 12 þúsund manns hafi sótt mótið, sem endurspeglar þann gríðarlega áhuga sem er á hestamennskunni í landinu.

Það sem einkennir landsmót af þessu tagi er sú mikla fagmennska sem sjá má öllum sviðum.

Fyrst og fremst sjáum við það í þeim framförum sem einkennir hestamennskuna. Þeir sem gleggst þekkja til, benda á að á milli landsmóta megi sjá og skynja endalausar framfarir. Ræktunarstarf og mikill og góður undirbúningur setur svip sinn á hestana sem leiddir eru fram á völlinn.

Svo er það þessi mikla breidd. Það eru einungis gæðingar sem maður ber augum á mótinu. Og manni verður hugsað til allrar þeirrar þrotlausu og einbeittu vinnu sem liggur hér að baki. Fjöldi fólks hefur lang tímum saman stefnt með gæðinga sína á mótið. Margir eiga á að skipa gífurlega góðum hestum, sem hlotið hafa látlausa þjálfun undir miklum aga. Síðan ræður auðna hversu hátt þeir ná. Mýmörg dæmi eru um hesta sem hafa allt til að bera, hafa fengið góða og vel undirbúna þjálfun, eru setnir af bestu knöpum - en ná samt ekki verðlaunasætum. Þetta segir okkur hve samkeppnin er í raun mikil.

Hestamennskan er svo sérstök að þvi leyti að hún sameinar marga kosti í senn. Þarna mætist fólk úr öllum stéttum, á öllum aldri, af báðum kynjum og úr sveit og borg og eiga það sameiginlegt að unna íslenska hestinum.

Síðan er það skipulag slíks móts. Það kostar engan smá undirbúning að taka á móti 12 þúsund manns, svo vel sé, eða sjá til þess að allur þessi mikli fjöldi hesta sé sýndur við góðar aðstæður.

Sjálfur átti ég þess kost að ríða í kjölfar fánaberanna þegar Landsmótið var sett sl. fimmtudag. Þetta var hátíðleg stund. Ég reið Braga, 15 vetra úrvalshesti sem ég fékk að láni frá góðu fólki. Hesturinn fór vel með mig, vanur sýningum og bar mig á góðu tölti um völlinn.

Og á síðasta degi Landsmótsins fékk ég það virðulega hlutverk að afhenda Sleipnisbikarinn, æðstu viðurkenningu sem nokkrum getur hlotnast í hrossaræktunni. Það var Hróður frá Refsstöðum sem vann bikarinn að þessu sinni og mér fannst það því hátíðleg stund þegar ég, - frammi fyrir 12 þúsund manns, -  rétti eiganda hans, Mettu Manseth á Þúfum í Viðvíkursveit í Skagafirði bikarinn, en ræktandi hestsins var Jenný Sólborg Franklínsdóttir sem lengi bjó á Refsstöðum í  Hálsasveit.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband