18.7.2008 | 09:05
Ólíku saman að jafna
Ólíku er saman að jafna ríkisstyrkjum í landbúnaði og sjávarútvegi. Þess vegna gæti Morgunblaðið allt eins sleppt hótfyndni sinni í leiðaranum í dag um ríkisstuðning í landbúnaði og sjávarútvegi. Tilefni leiðarans eru ummælin hér á þessari heimasíðu, í bloggfærslu sl. miðvikudag. Skoðum því málin aðeins betur.
Þegar það er upplýst að ESB ætli að beita ríkisstyrkjum til sjávarútvegsfyrirtækja fram til ársins 2010 upp á fjórðung árlegrar íslenskrar landsframleiðslu, þá er það alvarlegt. Við og ýmsar þjóðir greiðum nefnilega ekki ríkisstyrki til sjávarútvegsins og engar alvöru umræður fara fram um slíkt hér á landi. Íslenskir útvegsmenn eru til að mynda andsnúnir allri slíkri hugmyndafræði.
Þetta er alvarlegt fyrir tveggja hluta sakir. Annars vegar vegna þess að slíkt skekkir samkeppnisstöðuna, eins og allir sjá og ekki þarf að orðlengja um. En hitt atriðið er að ríkisstyrkir geta leitt til rányrkju á fiksimiðunum. Þetta virkar þannig, að þegar fiskistofnar fara minnkandi, eykst sóknartengdur kostnaður. Við eðlilegar aðstæður gefast útgerðir upp við slíka veiði og því er hverfandi hætta á að fiskistofnar þurrkist algjörlega upp. Ríkisstyrkir í sjávarútvegi gera fyrirtækjunum hins vegar kleyft að sækja á slík mið og eyða þannig fiskistofnum. Um það eru mýmörg dæmi.
Í landbúnaði er þessu öðruvísi farið. Þar má heita að niðurgreiðslur séu regla í flestum löndum; amk. þeim flestum sem við þekkjum best. ESB er klassískt dæmi og í Bandaríkjunum fara sömuleiðis fram gríðarlega miklir ríkisstyrkir til landbúnaðar. Ef við myndum hverfa frá niðurgreiðslum okkar er afleiðingin augljós. Landbúnaðarafurðir frá ríkisstyrktum landbúnaði annarra þjóða yrðu hér alls ráðandi. Með öðrum orðum. Í því viðskiptaumhverfi sem ríkir á sviði landbúnaðarmála í heiminum væri afnám niðurgreiðslna og annars stuðnings við okkar landbúnað til þess fallin að skekkja mjög samkeppnisstöðu okkar landbúnaðar.
Er það sanngjarnt? Það finnst skrifara þessarar síðu ekki. En Morgunblaðinu?
Í annan stað. Þau rök sem vísað er til hér að framan um tengsl ríkisstyrkja og rányrkju á hafinu eiga ekki við þegar til landbúnaðar kemur.
Hitt er hins vegar ljóst að miklar breytingar verða á stuðningskerfi landbúnaðarins ef og þegar DOHA lotunni lýkur innan vébanda WTO, Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Við Íslendingar eins og þær 152 aðrar þjóðir sem eru aðilar að stofnuninni, munum þurfa að aðlaga okkur að þeim veruleika þannig að þá megi segja að stuðningskerfið verði sambærilegra í þessum löndum.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook