Fjörug bryggjuhátíð

Bryggjuhátíð 2008, mynd Jón HalldórssonBryggjuhátíðin á Drangsnesi er ein þessara skemmtilegu hátíða sem efnt er til víða um land á sumrin. Drangsnesingar hafa haldið úti sinni hátíð árum saman. Hófust fyrst handa árið 1996 og ég hef haft þá ánægju að sækja þá nokkrum sinnum heim á Bryggjuhátíðina. Nú síðast á laugardaginn var.

Það einkennir hátíðina á Drangsnesi hversu heimamenn eru duglegir að vinna að undirbúningi í sjálfboðastarfi. Einn hápunkturinn er svo glæsilegt fiskihlaðborð, þar sem getur að líta alls konar krásir úr djúpum hafsins, sem heimamenn hafa aflað og matreitt.

Athygli vekja meðal annars réttir matreiddir úr sela og hvalkjöti og var ekki annað að sjá en að almennt hafi þvi öllu verið vel tekið; líka þvert á alla pólitík. Engan hitti ég að minnsta kosti sem óttaðist að meiri hagsmunum væri fórnað fyrir minni þó boðið væri upp á þessar miklu kræsingar, sem forboðnar eru á sumum bæjum eins og kunnugt er.

En þýðingarmikill þáttur hátíða eins og þessara er hið gamal kunna, að maður er manns gaman. Það er gaman að hitta fólk víða að, ekki þó síst heimamenn og brottflutta Strandamenn sem drífur þarna að.

Með mikilli samstöðu og góðri þátttöku er enginn vafi á því að Bryggjuhátíðin tókst vel að þessu sinni eins og fyrri árin og er gott tákn um þann samtakamátt sem með fólkinu ríkir.

Sá vinsæli bloggari Jón Halldórsson frá Hrófbergi, var að sjálfsögðu mættur á svæðið, með myndavélina sína með í för. Til þess að fá frekari innsýn inn í það sem fram fór á Drangsnesi er ágætt að skoða síðuna hans, ríkulega myndskreytta að vanda. Síðuna má skoða með því að smella á þessi bláleitu orð.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband