Hvaða rétt á að taka af lýðræðislega kjörnum fulltrúum?

RvikÍ tengslum við nýja meirihlutamyndun í Reykjavík hefur enn á ný skotið upp kollinum sú sérkennilega skoðun að meina eigi kjörnum fulltrúum að reyna að ná saman um samstarf. Þess í stað eigi að fara fram kosningar ef pólitískan meirihluta þrýtur örendið. Þetta er skrýtið sjónarmið.

Það er skilyrðislaust hlutverk stjórnmálamanna að tryggja að til staðar verði starfhæfur meirihluti, hvort sem það er á vettvangi sveitarstjórna eða Alþingis. Svo kann hins vegar að fara að forsendur meirihlutasamstarfs bresti og þá gerist það bara að menn freista þess að búa til nýjan pólitískan meirihluta, sem axlar sína ábyrgð. Þetta hefur hvað eftir annað gerst í landsmálum og á vettvangi sveitarstjórna. Nú er það að skilja á formælendum hinna sérkennilegu sjónarmiða um tafarlausar kosningar, að taka eigi þennan rétt af póltitískt kjörnum fulltrúum.

Fjölmörgum spurningum er ósvarað þegar þessi mál eru rædd. Og þá fyrst þessari: Hver á að taka ákvörðun um að boða til þessara kosninga í sveitarstjórnunum? - Væntanlega kjörinn meirihluti. Nú, sé hins vegar til staðar meirihluti kjörinna sveitarstjórnarmanna sem vill starfa saman þá er augljóst að ekki er fyrir hendi meirihlutavilji til að boða til kosninga.

Ástandið í Reykjavík hefur vissulega verið óviðunandi. Það vita allir. Forsendur meirihlutasamstarfs Sjálfstæðismanna með Ólafi F. Magnússyni voru horfnar. Það var hins vegar mat forystumanna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í borginni að forsendur væru til samstarfs og því eðlilegasti hlutur í heimi að láta á það reyna.

Það eru engin klækjastjórnmál, eins og oddviti Samfylkingarinnar í borgarstjórn uppnefndi þetta í Kastljósinu áðan. Hins vegar glitti í það fyrirbrigði þegar sá kvittur komst á kreik að hugmyndir væru uppi um að Ólafur F. Magnússon hyrfi af vettvangi borgarstjórnar og Margréti Sverrisdóttur yrði sjanghæjuð inn í borgarstjórnina í hans stað til þess að berja þrótt í lífvana Tjarnarkvartettinn.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband