Þegar landsstjórnarfundur vék fyrir handboltanum

Gleðistund. Mynd - Áskell ÞórissonSeint verður nokkuð ofsagt um afrek strákanna okkar í handboltanum á Ólympíuleikunum. Ég fylgdist með Spánverjaleiknum á stórum sjónvarpsskjá sem komið hafði verið fyrir á Landbúnaðarsýningunni á Hellu á dögunum. Það var gríðarleg stemming og nánast ólýsanlegt þegar við tryggðum okkur þátttöku í sjálfum úrslitunum.

Þegar ég kom út af sýningunni biðu mín kveðjur frá tveimur góðum færeyskum vinum mínum. Björn Kalsö fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Færeyja sendi mér heillaóskir í smáskilaboðum í símann minn.

Síðan hringdi í mig núverandi starfsbróðir minn í Færeyjum, Thorbjörn Jacobsen, sömu erinda. Ég spurði hann hvort Færeyingar fylgdust almennt með handboltanum. Hann hélt það nú! Ríkisstjórn Færeyja var sest á fund um það leiti sem leikurinn við Spán var að hefjast. Og sá merkisatburður setti allan landsstjórnarfundinn úr skorðum. Menn sóttu sér stóran sjónvarpsskjá, lögðu fundarstörfin til hliðar og stukku hæð sína í loft upp í landsstjórnarherkæðunum þegar sigur Íslands var í höfn.

Sem sannar enn og aftur að Færeyingar eru frændur okkar og vinir.

Nú bíðum við þess að geta tekið á móti hetjunum okkar frá Peking. Það verður gaman að fá að taka þátt í þeim fagnaði með öllum þeim þúsundum - já og örugglega tugþúsundum - sem koma til að fagna. Þeir eiga það skilið að við samfögnum þeim.

Gleymum því ekki að það er í sjálfu sér afrek að komast í gegn um nálaraugað og ná á Ólympíuleikana. En að vinna silfurverðlaun er afrek sem ekki verður lýst með orðum. En við öll, íslenska þjóðin skilur þýðingu þess og hlökkum til að berja hetjurnar okkar augum.

 




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband