1.9.2008 | 22:33
Upptökusvæðið er heimurinn allur
Nýja háskólanámið á Ísafirði sem hófst í gær markar tímamót. Ástæðan er sú að með tilkomu námsleiðarinnar verður í fyrsta sinn boðið upp á staðbundið háskólanám, sem að öllu er kennt á Vestfjörðum.
Það er óneitanlega líka dálítið sérstakt að af þeim tíu nemendum sem hefja námið núna eru bara þrír Íslendingar. Alþjóðlegra getur það því varla orðið. Menn tala um upptökusvæði skóla og í þessu tilviki er upptökusvæði skólans heimurinn allur.
Umhverfið var því óneitanlega alþjóðlegt í Edinborgarhúsinu í gær, þegar námsleiðin var ræst. Og hið metnaðarfulla yfirbragð sem einkenndi upphafið leyndi sér alls ekki.
Áður en námskeiðið hófst flutti ég ræðu og setti ráðstefnu sem efnt var til í tilefni af hinni nýju námsleið. Þar sátu meðal annars væntanlegir nemendur á námskeiðinu og fyrir vikið fór ráðstefnan að mestu fram á ensku. Viðfangsefnið var viðeigandi; Málþing um sjálfbæra nýtingu íslenskra strandsvæða. Meðal annars í ljósi þeirra breytingar sem eru að verða á nýtingu þessara svæða í ljósi þeirra breytinga sem eru að verða á þessum sviðum.
Við vorum öll sammála um það sem sátum þessa ráðstefnu að eftirtektarvert væri að fylgjast með þeirri miklu grósku sem er í rannsóknar og þróunarstarfinu á Vestfjörðum. Margvíslegar rannsóknir eru stundaðar á fjölbreyttum sviðum. Kynntar voru niðurstöður frá MATÍS á Ísafirði og í hinu nýja rannsókna og fræðasetri Háskóla Íslands í Bolungarvík, en þar stunda fjölmargir nemar nám undir handleiðslu forstöðumannsins Guðbjargar Ástu Ólafsdóttur. Athyglisvert er að enginn hörgull er á nemendum sem vilja koma til náms í hinu nýja setri; gagnstætt mati sumra svartsýnismanna.
Þetta var dagur mikilla vona og heiðríkja í hugum okkar sem þarna vorum saman komin. Vonirnar eru að rætast og enn sjáum við rétt uppbyggingarskref í rannsóknar og þróunarstarfi á háskólastigi á Vestfjörðum.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook