4.9.2008 | 15:29
Þetta kalla þeir að gera ekki neitt !!
Geir H. Haarde forsætisráðherra hrakti eftirminnilega síbylju stjórnarandstæðinga um að ekkert væri gert í efnahagsmálum, í skýrslu sem hann flutti Alþingi á fyrsta starfsdegi haustþingsins nú á þriðjudaginn. Meðal þeirra þátta sem forsætisráðherra nefndi voru eftirfarandi:
1. Rýmkaðar hafa verið reglur Seðlabankans um veð í reglum bankans við viðskiptastofnanir, sem hefur auðveldað þeim aðgengi að lánsfé.
2. Seðlabankinn hefur gert gjaldeyrisskiptasamninga við Seðlabanka, Noregs, Svíþjóðar og Danmerkur, sem felur í sér bakstuðning bankanna og styrkir gjadeyrissjóð Seðlabankans um 180 milljarða
3. Nú er verið að nýta heimildina sem Alþingi gaf í vor til að styrkja gjaldeyrisforðann um allt að 500 milljörðum króna.
4. Ráðstafanir voru gerðar í júní, tengdar Íbúðalánasjóði sem bæta lausafjárstöðu fjármálafyrirtækja. Þetta kemur einkum hinum minni fyrirtækjum, svo sem sparisjóðum til góða
5. Í lok júní var tilkynnt um 75 milljarða skuldabréfaútgáfu ríkisins. Þetta eykur gengisstöðugleika og laðar að erlenda fjárfesta til Íslands.
6. Felld hafa verið niður stimpilgjöld vegna kaupa á fyrstu íbúð. Þessi ákvörðun glæðir fasteignamarkaðinn og er einkum til hagsbóta fyrir ungt fólk.
7. Gjaldeyrisvarasjóðurinn var aukinn um liðlega 12% með víxlaútgáfu ríkissjóðs.
8. Skattar á fyrirtæki voru lækkaðir í 15% til þess að styrkja stöðu atvinnulífsins.
9. Nú er verið að ganga frá nýju gjaldeyrisláni upp á 300 milljónir evra, sem svara til um 36 milljörðum króna.
10. Gjaldeyrisvaraforðinn nam 100 milljörðum um mitt ár 2006. Í lok júní sl. var hann helmingi hærri, eða 200 milljarðar. Núna er gjaldeyrisvaraforðinn 500 milljarðar. Hefur sem sé fimmfaldast á tveimur árum og er þar með orðinn hlutfallslega meiri en í nágrannalöndum okkar.
Flestir aðrir en þeir, sem ævinlega hafa kíkinn fyrir blinda auganu þegar þeir rýna í efnahagsstærðir, sjá að hér er um margvíslegar og markvissar aðgerðir að ræða. Sem sýnir og sannar að allt er það endalausa tal um að ekkert sé gert og ríkisstjórnin aðhafist ekkert, fullkomlega merkingarlaust..
Hér að ofan er vakin athygli á umtalsverðum ákvörðunum í tíu liðum, sem vitaskuld hafa áhrif og eru liður í þeim margháttuðu aðgerðum sem ríkisstjórnin og Seðlabankinn hafa tekið. Enda bendir greiningardeild Glitnis á þessa þætti í athyglisverðri úttekt þann 2. september og segir: "Þegar litið er í baksýnisspegilinn kemur á daginn að stjórnvöld hafi vissulega brugðist við breyttum aðstæðum í hagkerfinu með ýmsum hætti undanfarna mánuði."
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook