Ofgnóttin kemur mönnum í koll

Sandur af seðlumÞað eru margsönnuð sannindi að eigi menn ofgnótt af einhverju þá fara menn ekki vel með. Það er eins og ráðdeild verði óþörf þurfi menn ekki að spara við sig. Ætli við höfum ekki öll upplifað þetta. Reynsla fólks er jafnan einhvern veginn svona. Þegar menn eru ungir og blankir eyða menn minnu en þegar fjárhagurinn verður rýmri. Þetta er ekki mjög flókið.

Sama á við um fjárfestingar. Það er kunnugt að menn gerðu ekki sömu arðsemiskröfur á þeim áratugum hérlendis þegar raunvextir voru neikvæðir. Þegar lán var virkilegt LÁN - eða gæfa, - í þeim skilningi - að það sem maður fékk að láni sá verðbólgan um að greiða til baka; að minnsta kosti að einhverju marki. Fjárfestingarmistök komu mönnum þá síður í koll.

Í gamla daga þegar ég nam íslenska haglýsingu hjá Jóni Baldvin í Menntaskólanum á Ísafirði sagði hann okkur að þessir neikvæðu raunvextir væru til dæmis ein ástæða þess að menn hefðu fjárfest svona grimmilega í steinsteypu hér á landi, eins og það var kallað þegar menn byggðu on yfir sig.

Nú heyrum við hins vegar tröllasögur af miklum fjárfestingartöpum, erlendis og hérlendis. Eignir íslenskra fjárfesta rýrna stórlega vegna lækkandi hlutabréfaverðs í útlöndum.

Og rifjum þá upp samhengið. Upphaf þeirra þrenginga sem við upplifum núna á alþjóðlegum mörkuðum - og þess vegna líka hér á landi - má rekja til þess að menn höfðu nær takmarkalausan aðgang að ódýru fjármagni. Þess vegna vönduðu menn ekki fjárfestingarnar.

Kannast lesendur ekki við hugtakið "skuldsett yfirtaka", sem þýðir að menn fjárfesti án mikils eða nokkurs eigin fjár. Þetta var oft gert á Íslandi fyrir daga verðtryggingar með góðum árangri. Verðbólgan kom nefnilega til bjargar. En nú gilda önnur lögmál. Nema að því leyti að enn á það við að ofgnóttin leiðir til þess að menn vanda sig síður. Blasir það ekki við að ein ástæða vandræðanna nú er hinn takmarkalausi aðgangur að ódýru lánsfé?




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband