8.9.2008 | 21:52
Öllu þessu svipar saman
Það er dálítið merkilegt að sjá hvernig þróun mála hér á landi líkist oft þróuninni í nágrannalöndum okkar. Þessa sér stað á mörgum sviðum. Og þó að hagsveiflan hér sé ekki á sama róli og til að mynda í evrulandinu, dregur þróunin hér oft dám af því sem lesa má um í útlöndum.
Við vitum að hér á landi hefur orðið mikil fjölgun fólks sem er af erlendu bergi brotið. Og þó þessu fólki hafi eitthvað fækkað þá er miklu fleira fólk hér af erlendum uppruna en var fyrir fáeinum árum. Enginn vafi er á því að þetta hefur verið jákvætt fyrir okkur. Vinnumarkaðurinn réði einfaldlega ekki við þá stækkun hagkerfisins sem hér varð. Án þessarar viðbótar á vinnumarkaðnum hefði vöxtur hagkerfisins einfaldlega orðið takmarkaður.
Í Bretlandi sjáum við svipaða þróun. Því er haldið fram af fræðimönnum að aldrei fyrr í sögu Bretlands hafi jafn margir flutt til landsins og á undanförnum árum. Með stækkun ESB opnaðist gríðarlega stór vinnumarkaður, líkt og við þekkjum, sem hluti EES svæðisins. Ein milljón manns hefur komið til Bretlands frá nýju ESB löndunum eftir að þau urðu hluti af vinnumarkaði ESB ríkjanna (og þar með EES svæðisins). Umönnunarstéttir, þjónustugeirinn og byggingariðnaðurinn einkennist af starfsfólki frá gömlu Austur Evrópu. Tveir þriðju þessa fólks hefur komið frá Póllandi.
En nú er þróunin að snúast við. Og ástæðan? Starfstækifærum í þjónustugeiranum og byggingariðnaði fækkar. Á sama tíma er árlegur hagvöxtur í Póllandi 5%. Sterlingspundið hefur veikst og hinn pólski kaupmáttur þeirra tekna sem menn vinna sér inn í Bretlandi hefur minnkað.
Þetta hljómar kunnuglega. Íslenska krónan hefur lækkað. Störfum í verktakabransanum fækkar og ætla má að svipað muni eiga sér stað í þjónustugeiranum, þó atvinnuleysiðsé varla mælanleg stærð hér á landi. Þróunin hér á landi á sér hliðstæðu úti í heimi, af því að þar eins og hér er verið að glíma við afleiðingar alþjóðlegrar fjármálakrísu, sem veldur sams konar búsifjum; einnig í löndum þar sem menn búa við öflugan bakhjarl á gríðarstórum myntsvæðum.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook