Vestfirskur sigur í Vesturbænum

BÍ / Bolungarvík. Mynd bb.isMenn létu rigninguna í Vesturbæ Reykjavíkur ekkert á sig fá í kvöld, þegar við sáum BÍ / Bolungarvík bursta vesturbæjarliðið KV. Það var til mikils að vinna. Þessi leikur réði úrslitum um að okkar menn tryggðu sér sæti í 2. deild. Þetta var frábær árangur, að loknum bráðskemmtilegum leik þar sem lið Bolvíkinga og Ísfirðinga hafði algjöra yfirburði. Úrslitin 4 - 0 segir alla söguna. Okkar menn voru einfaldlega mikið betri.

Það var mjög gaman að vera viðstaddur þessi tímamót. Leikurinn var fjörugur og háður af leikglöðum Vestfirðingunum. Sigur þeirra var tæplega nokkurn tímann í hættu, þó aldrei geti verið á vísan að róa; sérstaklega ekki þegar mikið er í húfi.

En hitt var líka gaman; að hitta mikinn fjölda Ísfirðinga og Bolvíkinga sem lagði leið sína á knattspyrnuleikvang KR - inga í Vesturbænum, þar sem leikurinn fór fram. Þarna voru samankomnir hópar fólks að vestan, afar, ömmur, frændur, frænkur og foreldrar, systkini og vinir. Svo sá maður fullt af ungu vestfirsku námsfólki sem fór á leikinn til að hvetja jafnaldra og vini. Síðan var mættur drjúgur hópur brottfluttra Vestfirðinga sem dró heldur ekki af sér í hvatningarhrópunum og vinsamlegum ráðleggingum til leikmanna - og vel að merkja dómara, eins og gengur.

Það fór heldur ekkert á milli mála að vel var fylgst með "strákunum okkar" að vestan og fólk lagði þeim lið í undirbúningnum með ýmsum hætti. Dísa Hjartar í Vikinni bauð þeim upp á orkudrykk, sem lesa má um nánar á hinu góða vefriti Víkara og nálgast með því að smella á þennan bláleita texta. Og Jóhann Torfason lét ekki sinn hlut eftir liggja; bauð strákunum í grill fyrir leikinn gegn Ými fyrir viku. Og auðvitað var Jói mættur galvaskur suður, til þess að hvetja mannskapinn og leggja honum til góð ráð, hins þaulreynda kappa.

En allavega. Þetta var mjög skemmtilegur tími þarna í reykvísku rigningunni, innanum fullt af Vestfirðingum - með regnhlífar.

Og ríkisstjórnin átti tvo fulltrúa þarna í hópi áhorfenda. Okkur Kristján L. Möller, sem vorum mættir til að hvetja BÍ/Bolungarvík. Stuðningur ríkisstjórnarinnar var því algjörlega óskoraður, án þess að það hafi valdið miklu um úrslitin !! - En mikið var þetta sætur sigur og gaman að vera með sigurliðinu á þessari skemmtilegu stundu.

 




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband