Hið nýja einkennistákn stjórnarandstöðunnar

Þegiðu GuðniÞingið í september var fróðlegt. Einnig fyrir okkur þingreynda, þar sem hér var fitjað upp á nýmæli. Hálfsmánaðarþing í september sem afgreiddi ein níu lög þar af sum hver býsna viðurhlutamikil verður að teljast starfssamt þing. Tilganginum, að minnsta kosti að þessu leyti, virðist hafa verið náð.

Eins og við var að búast varð þingið líka nýr umræðuvettvangur. Það hófst með afar fróðlegri skýrslu forsætisráðherra um efnahagsmál, sem sýndi fram á, - ólíkt öllu röflinu um hið gagnstæða, - að gripið hefur verið til margvíslegra ráðstafana í efnahagsmálum, við erfiðar og óvenju snúnar aðstæður. Um þetta má lesa hér.

En á þessu þingi sem var mikill umræðuvettvangur, mátti líka sjá á spil stjórnarandstöðunnar. Nú hefur hún haft ríft ár til að brýna vopn sín og slípa sig saman; sé einhver vilji til þess.

Og þó maður vilji sýna alla mögulega sanngirnir er ekki hægt að bera það upp á stjórnarandstöðuna að hún sé samstæð. Það væri að minnsta kosti afskaplega ósanngjarnt að gera það.

Þetta kom til dæmis í ljós í atkvæðagreiðslu um veigamesta mál septemberþingsins, lögin um sjúkratryggingar. Þar voru Vinstri grænir algjörlega einangraðir. Þeim fylgdi enginn, nema Framsókn í atkvæðagreiðslu um einn efnisþátt frumvarpsins. VG var sumsé alltaf á móti (hvað annað) Framsókn sat hjá (gat ekki tekið afstöðu) og Frjálslyndir fylgdu frumvarpinu.

Í umræðum um stóriðju neistaði bókstaflega á milli VG og Framsóknar. Viðkvæmnin var svo ofurmikil, að eitt frammíkall frá formanni Framsóknarflokksins þegar formaður VG flutti ræðu, fékk þann síðarnefnda til að hreyta í formann Framsóknarflokksins ónotum.

"Þegiðu Guðni", sagði Steingrímur J. við Guðna. Þannig ganga ávarpsorðin á milli stjórnarandstöðuleiðtoganna.

Hið nýja einkennis og sameiningartákn stjórnarandstöðunnar var þarna orðið að veruleika; þegiðu Guðni !




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband