3.10.2008 | 09:16
Miklir erfiðleikar og alvörutímar
Nú eru miklir erfiðleika og alvörutímar. Við slíkar aðstæður er mikilvægt að menn horfist í augu við þann raunveruleika; hversu bitur og erfiður sem hann er. Við slíkar aðstæður leyfist ekki léttúð. Við verðum að takast á við þennan vanda af fullkominni alvöru og með öllum þeim ráðum sem eru okkur tiltæk.
Lækkun gengis íslensku krónunnar er stóralvarlegt mál. Lánsfjárskortur sem bitnar grimmilega á fjármálakerfi okkar eins og annarra er það sömuleiðis. Verkefnið snýr að því að ná tökum á þessu ástandi.
Geir H. Haarde forsætisráðherra fjallaði einmitt um þessi mál í stefnuræðu sinni í gærkveldi. Það er ástæða til að vekja hér athygli á því sem hann sagði:
"Staða efnahagsmála hér á landi hefur á skömmum tíma breyst mjög til hins verra og fullyrða má að íslensk stjórnvöld, íslensk fyrirtæki og heimilin, fólkið, í landinu hafi sjaldan staðið frammi fyrir jafn miklum erfiðleikum og nú blasa við. Eftir blómlega uppgangstíma er skollið á gjörningaveður í efnahagskerfi heimsins og brimsjórinn af því mikla umróti skellur nú Íslandsströndum af miklu afli. Allir vissu að góðærið myndi ekki vara endalaust en enginn sá fyrir þann storm sem skall á sl. vetur og fer nú um efnahagskerfi heimsins með mikilli eyðileggingu.
Við horfum fram á að íslensku bankarnir, flaggskip útrásar síðustu ára, búa sig nú undir mikla varnarbaráttu. Þurrausnar lánalindir gera íslenskum fyrirtækjum afar erfitt fyrir og þau sem færst hafa of mikið í fang berjast nú í bökkum. Íslensk fyrirtæki hafa á undanförnum árum teflt djarft í sókn sinni og uppskeran hefur í mörgum tilvikum verið ríkuleg. Hagnaður íslenskra fyrirtækja hefur verið ævintýri líkastur og hafa hluthafar notið góðs af. Þegar uppstreymið hættir er fall þeirra sem hæst fljúga mest.
Það sem mest svíður er þó hin óhjákvæmilega lífskjaraskerðing sem almenningur í landinu stendur frammi fyrir. Á undanförnum árum höfum við Íslendingar notið þess að búa við bestu lífskjör sem fyrirfinnast í heiminum. Við gerum öll kröfu um það besta og þannig á það að vera. En íslenska þjóðin er ekki samansafn af óhófslýð sem heldur að verðmæti og góð lífskjör falli af himnum ofan. Íslenska þjóðin veit að leiðin til velmegunar er vörðuð erfiðum hindrunum og íslenska þjóðin er það sem hún er í dag vegna þess að hún hefur tekist á við erfiða tíma og sigrast á þeim.
Á sama hátt og við brutumst út úr vesöld og fátækt fyrir áratugum síðan með bjartsýni og baráttuhug að vopni, þá munum við komast útúr þeim hremmingum sem yfir okkur ganga nú. Við Íslendingar gefumst ekki upp þótt á móti blási og við munum ekki örvænta eða leggja árar í bát í þeim stjórsjó sem þjóðarskút siglir nú í gegnum. Við erum öll á sama báti, stjórnvöld, fyrirtækin og fólkið í landinu."
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook