Ekki bitið úr nálinni - ennþá

Alistair DarlingVið sem fylgjumst með breskum stjórnmálum vitum að fjármálaráðherra Breta er ekki í miklum metum. Jafnvel svo hófstillt blað sem The Economist hefur haft uppi hin stærstu orð um frammistöðu hans. Þegar stjórnmálamaður í slíkri örvæntingarstöðu fær tækifæri til að dreifa athyglinni frá eigin vadræðagangi og efnahagsvandræðum heima fyrir, þá grípur hann það; sé hann maður lítilla sæva og sanda í pólitík.

Þetta er ástæða þess að þeir félagarnir mr. Darling og mr. Brown fóru fram með þeim dæmalausa hætti gegn Íslandi og íslenskum hagsmunum. Þetta hefðu þeir ekki leyft sér gegn stórþjóðum. Þeir hefðu aldrei þorað í Frakka, Þjóðverja, hvað þá Bandaríkjamenn. Þeir spörkuðu hins vegar í okkur, af því þeir töldu sig eiga í fullu tré við okkur.

Þeim var greinilega sama þótt við værum vinaþjóð. Hefðu þeir brugðist svona við gagnvart stórþjóð, hefðu strax komið fram efasemdir um að hægt væri almennt fyrir aðrar þjóðir að eiga viðskipti í gegnum London, sem þó er alþjóðleg fjármálamiðstöð. Tvímenningarnir úr Downingstræti töldu að spörkin í okkur sköpuðu enga slíka hættu. Þeir hafa þó ekki bitið úr nálinni með það. Að því kemur - fyrr en síðar - að umræður skapast um einmitt þetta. Um það hvort óhætt sé að láta London vera vettvang viðskipta, þegar sýnt er að yfirvöldin beita hryðjuverkalögum tilefnislaust og eftir (pólitískum) hentugleikum.

Og síðan eitt enn. Hinn seinheppni Darling kom fram í fjölmiðlum og laug um samtal sitt við íslenskan starfsbróður sinn. Það vitum við núna eftir að fyrirliggja upptökur af samtölum þeirra Árna M. Mathiesen. Afleiðingarnar af ofsafengnum viðbrögðum breskra stjórnvalda fyrir stærsta fyrirtæki okkar Íslendinga liggja fyrir. Hið óafsakanlega framferði þeirra að setja okkur á bekk með verstu morðhundum heimsins, liggur fyrir. En eitt á þó eftir að koma í ljós.

Breskir fjölmiðlar hafa birt frásagnir af samtölum þeirra Darling og Árna M. Mathiesen. Þeir hafa dregið sínar ályktanir eins og óhjákvæmilegt er. Virðulegustu dagblöð Breta, eins og The Times og Financial Times segja skýrt og skorinort, að Darling hafi sagt ósatt um símtal þeirra Árna.

Þetta eru gríðarlega alvarlegar fullyrðingar. Í Bretlandi er ósannsögli stjórnmálamanna nefnilega litin afar alvarlegum augum og tilefni brottvikningar. Enn situr Darling þó á stól sínum.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband