Í þágu bandarískra hagsmuna

Barack Obama143 árum eftir að þrælahald var afnumið í Bandaríkjunum var blökkumaður kosinn þar forseti. Sigur Baracks Hussein Obama var á allan hátt sögulegur. Sigur hans var í raun staðfesting bandaríska draumsins, árétting þess að þrátt fyrir allt þá eru Bandaríkin vettvangur tækifæra.

Trú á tiltekin megingildi setja svipmót sitt á bandaríska stjórnmálaumræðu. Okkur Evrópumönnum finnst sumt sérkennilegt; eilíf skírskotun til fósturjarðarinnar og almættisins myndi til dæmis hljóma sérkennilega í okkar heimshluta. Þar vestra er það hins vegar sjálfsagt og eðlilegt. Obama er trúr þessum snara þætti bandarískrar stjórnmálaumræðu og er núna skýrasta afsprengi þeirrar hugmyndafræði sem sameinar menn um þvert og endilangt hið pólitíska litróf þar vestra.

Breska blaðið The Times kallar kosningarnar í Bandaríkjunum, afburðalýðræði og það er réttnefni. Ekki bara vegna þess að þær skipta svo miklu máli fyrir heiminn, í voldugasa ríki veraldarinnar. Ekki bara vegna þess að þær marka tímamót. Heldur vegna þess að kjör Obama styrkir hina hefðbundnu ímynd Bandaríkjanna; ímyndina um frjálsborna menn sem geta hafist af sjálfu sér í lýðræðislegu ríki.

Þessi ímynd hefur beðið hnekki. Ekki vegna verka George Bush, eins og stjórnmálaskýrendur með skammtímaminni halda fram. Heldur er þetta þróun sem hefur orðið á lengri tíma.

Sé einhver sá til sem ennþá véfengir að Bandaríkin séu staður þar sem allt er mögulegt, hefur fengið svar við efasemdum sínum nú í kvöld, sagði Obama í áhrifaríkri ræðu á íþróttaleikvanginum í Chicago, eftir að sigur hans var í höfn. Og það er  einmitt þessi einbeitta skírskotun til föðurlandsins og hugsjóna þess sem gengur sem rauður þráður í gegn um málflutning hans og markar honum skýran sess.

Andstæðingur hans, John McCain  var sömuleiðis holdtekja hins bandaríkja draums þó á annan hátt væri. Hann er tiltölulega frjálslyndur, traustur í öryggismálum, en hafði slæman drösul að draga. Hin afkáralega siðgæðishræsni sem plagar Repúblikanaflokkinn - og birtist meðal annars í varaforsetaefni hans - gerði það að verkum kjör hans hefði fært Bandaríkin aftur til fortíðar á margan hátt.

Kjör Baracks Obama þjónaði því bandarískum hagsmunum betur.

PS

Og nú hefur það gerst að Obama hefur valið sér sinn fyrsta samstarfsmann, félaga sinn frá Illinoisfylki, fulltrúadeildarþingmanninn Rahm Israel Emanuel. Hann verður starfsmannastjóri Hvíta Hússins, sem er mjög áhrifamikið starf. Þetta er áhugavert. Emanuel er gyðingur, grjótharður stuðningsmaður Ísraelsmanna, studdi innrásina í Írak og  er frjálslyndur í innanríkismálum. Þetta gæti verið vísbending um það sem koma skal bæði um afsöðu nýju stjórnarinnar í innanríkis og utanríkismálum.

- Og svo má því bæta við að nýi starfsmannastjórinn er þrautþjálfaður balletdansari með prófgráðu í þeim fræðum.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband