16.11.2008 | 14:58
Evrópumálin tekin til endurmats
Einhver lífseigasta lygasaga stjórnmálanna er sú að Sjálfstæðisflokkurinn hafi verið á móti því að evrópumál séu rædd. Það er þvaður. Sjálfstæðismenn hafa þvert á móti tekið virkan og lifandi þátt í evrópuumræðunni og örugglega lagt til hennar meira en flestir aðrir. Við höfum hvatt til þessarar umræðu og við höfum tekið þátt í þessari umræðu og stundum hefur manni fundist að framboð af evrópuumræðu frá okkur stjórnmálamönnunum og álitsgjöfum hafi verið meira en eftirspurnin frá almenningi.
Það er í rauninni óþolandi að þurfa að hlusta á svona bull-síbylju um meinta óbeit okkar á því að tala um Ísland og Evrópusambandið. Og það jafnvel frá vænu og yfirveguðu fólki, eins og honum Baldri Þórhallssyni prófessor sem talaði í þessa veru í útvarpinu á föstudagskvöldið.
Það er ekki nema eitt og hálft ár síðan við mótuðum okkur stefnu í þessum málaflokki í aðdraganda kosninga. Okkar niðurstaða á Landsfundi var sú að hagsmunum þjóðarinnar væri betur borgið utan en innan ESB. Þeir voru sannarlega til á landsfundinum sem þessu voru ekki sammála, en ekki risu miklir úfar með mönnum vegna þess. Með þessa stefnumörkun gengum við til kosningabaráttunnar og fengum góða útkomu í kosningunum.
Það er ekki algengt að stjórnmálaflokkar endurmeti stefnu sína í grundvallarmáli eins og þessu innan við tveimur árum eftir að hún er ákveðiðn í æðstu valdastofnun flokksins. Þetta ætlum við þó núna að gera með vönduðum hætti.
Ekki út frá því þrönga sjónarhorni sem nú tíðkast þar sem aðeins virðist mega ræða um einn anga - stóran anga - evrópumálsins; þ.e evruna. Við ætlum að ræða þetta yfirvegað og skoða málin í heild.
Við ætlum sem sé í hagsmunamat, eins og formaður okkar Geir H. Haarde forsætisráðherra nefnir það. Við ætlum að skoða þessi mál með opnum huga og fordómalaust þar sem við höfum aðeins eitt leiðarljós. Hagsmuni íslensku þjóðarinnar. Við erum ekki að fara í hugsjónauppgjör, af því að ekkert kallar á það, en við viljum skoða hleypidómalaust hvað þjónar hagsmunum Íslands best. Þessu verkefni ætlum við að ljúka á Landsfundinum í janúarlok.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook