Miklir erfiðleikar framundan en góðar langtímahorfur

IMFSú efnahagsáætlun sem við bjuggum út í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, IMF, er háð óvanalega mikilli óvissu og umtalsverðri áhættu. En hins vegar eru horfurnar um hagvöxt til lengri tíma góðar, sakir sterkra innviða  þjóðfélagsins, góðrar menntunar landsmanna, aðlaðandi fjárfestingaumhverfis og mikilla náttúruauðlinda.

Þetta er í hnotskurn það mat sem IMF leggur á stöðu mála hér á landi. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur nú afgreitt umsókn okkar með jákvæðum hætti. Fyrir liggja lánsloforð annarra þjóða. Í þessu felst traustsyfirlýsing þessara aðila um  þau áform sem við höfum sett fram um viðreisn efnahagslífsins og skýr skilaboð um að unnt sé að hefja hér eðlilegt gjaldeyrisviðskipti á markaðsforsendum. Þetta er afar mikilvægt og ætti að þjóna þeim mikilvæga  tilgangi að styrkja krónuna að nýju, ná þannig niður verðbólgu, stuðla að vaxtalækkun og lækka skuldir heimila og fyrirtækja.

IMF færir fyrir því rök í áliti sínu sem kynnt er á heimasíðu sjóðsins að gert sé ráð fyrir að hagkerfi okkar færist tiltölulega skjótt í jafnvægisástand. Framundan sé hins vegar erfiður samdráttartími sem vara muni fram á árið 2010. Snöggur samdráttur í innflutningi geri það á hinn bóginn að verkum að þrálátur halli á viðskiptum við útlönd breytist fljótlega í umtalsverðan afgang. Útflutningsverðmæti verði sem sagt mun meira en kostnaðurinn við innflutning.

Þá segir sjóðurinn í áliti sínu, að jafnskjótt og við höfum byggt upp traust og skapað viðskiptajöfnuð muni einkaneysla taka fljótt við sér og fjárfesting einnig aukast að nýju á árinu 2011. Og vel að merkja. Sjóðurinn telur að bæði vöruskiptajöfnuður og viðskiptajöfnuður verði jákvæður strax á næsta ári.

Með öðrum orðum. Það sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er þá að segja er þetta: Framundan eru miklir erfiðleikar í efnahagslífinu og miklir óvissutímar. En þjóðin hefur alla möguleika til þess að vinna sig út úr þessum vanda og snúa vörn í sókn; og þeirrar sóknar mun gæta fyrr en síðar.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband