2.1.2009 | 11:19
Augljós tilgangur, fordæmanleg meðul
Ofbeldisfólkið sem réðist til inngöngu inn á Hótel Borg, í því augnamiði að koma í veg fyrir lýðræðislegar umræður stjórnmálaleiðtoganna og fór fram með ofbeldi gegn lögreglunni, starfsmönnum fjölmiðils og starfsfólki Hótel Borgar, getur ekki réttlætt gjörðir sínar með skírskotun til stjórnmála. Það sem þau gerðu á gamlársdag var ekki pólitísk barátta, heldur hreint ofbeldi; óréttlætanlegt ofbeldi sem ber að fordæma.
Þeir eru margir sem skýla sér á bak við "málstað" og stjórnmálaskoðun, til réttlætingar á líkamlegu ofbeldi. Þetta er alþekkt fyrr og síðar og víða um lönd og álfur. Þangað sækja hinir íslensku ofbeldismenn fyrirmyndir sínar og kenna svo athæfi sitt við mótmæli !
- Þetta er þóðfélaginu að kenna, stjórnvöldum að kenna, er sagt; það er einhverjum öðrum að kenna en sjálfum ofbeldisgerandanum. Ofbeldisfólkið sem hefur farið mikinn síðustu vikurnar, ruðst inn á Alþingi, meinað ráðherrum inngöngu á ríkisstjórnarfundi, ruðst inn á lögreglustöðina í Reykjavík og nú síðast með árásum á fólk sem var að sinna lögmætum störfum sínum, réttlætir athæfi sitt með skírskotun til stjórnmála og tilgangi sem helgi meðalið. Þetta er gamalkunnug réttlæting á óréttlætanlegu athæfi.
Tilgangurinn er jafnan í svona tilvikum að reyna að brjóta niður það sem einkennir frjálst og umburðarlynt bogaralegt samfélag og nota til þess þau meðul sem við höfum séð. Þetta á ekkert skylt við þau lýðræðislegu mótmæli sem við höfum séð undanfarnar vikur, eða þau mótmæli sem íbúar landsins hafa efnt til fyrr og síðar, með friðsamlegum hætti í þágu tiltekins málstaðar.
Hinum fámenna hópi - þeirri litlu ofbeldisklíku - sem við sáum til á gamlársdag mun ekki takast ætlunarverk sitt. Hvorki að laska einkenni okkar opna samfélags né að koma óorði á þá sem mótmæla með lýðræðislegum hætti, í þágu málstaðar sem ekkert á skylt við ofbeldisverk.
Lýðræðislegir innviðir samfélags okkar eru sterkari en svo að litli en harðskeytti ofbeldishópurinn nái að valda því tjóni.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook