Óravegu frá langtímajafnvægi

Mynd ITölur um vöruskiptajöfnuð á síðasta ári sýna svart á hvítu að vöruskipti við útlönd stefna sem óðast í átt að jafnvægi. Tölur Hagstofunnar um útflutning og innflutning gefa okkur til kynna að útflutningsverðmæti séu að verða meiri en kostnaður við innflutning. Þannig varð bæði afgangur í nóvember og desember, sem að öðru jöfnu ætti að leiða til styrkingar krónunnar. Enn eru þó til staðar ýmsir óvissuþættir, sem tefja að krónan styrkist eins og vonir höfðu staðið til. Styrking krónunnar er hins vegar lykilatriði fyrir okkur við viðreisn efnahagslífsins.

Hagfræðingar sem hafa tjáð sig um þessi mál hafa einmitt fært rök fyrir þessu.

 Skemmst er að minnast sjónarmiða 32 landsþekktra hagfræðinga sem skrifuðu grein í Morgunblaðinu í gær þar sem þeir færðu rök gegn hugmyndum um einhliða upptöku evru. Þeir segja að gengi krónunnar sé núna lægra en langtímajafnvægisgengi. Í greininni segja þeir:

 “Raungengis krónunnar er afar lágt um þessar mundir og mikilvægt að það færist smám saman nær langtíma jafnvægi.......”

 Greining Glitnis fjallar ennfremur um þessi mál í fyrradag, en þar segir:

 “Raungengi krónunnar er, þrátt fyrir að hafa sótt í sig veðrið undanfarið, óravegu frá langtímajafnvægi og meðaltali og flýtir þessi þróun allverulega fyrir aðlögun hagkerfisins að ytra jafnvægi. Ísland er nú í raun ódýrt í alþjóðlegum samanburði sem er mikill viðsnúningur frá fyrri tíð þegar Ísland komst ítrekað ofarlega á blað yfir dýrustu lönd í heimi og óvíða annars staðar en í Reykjavík þóttu peningar ferðmanna duga jafn skammt og raun bar vitni. Þetta lága raungengi er tímabundið ástand enda mun raungengi krónunnar hækka til lengri tíma litið þegar jafnvægi næst á gjaldeyrismarkaði og nafngengi krónunnar tekur að stíga á nýjan leik.  Engu að síður býður lágt raungengi upp á ýmis tækifæri enda er samkeppnishæfni hagkerfisins nú með besta móti  í alþjóðlegu tilliti og ódýrara er fyrir erlenda ferðmenn að sækja landið heim. Að sama skapi hafa krónur Íslendinga rýrnað verulega  að verðgildi í útlöndum eins og þeir landsmenn sem hafa lagt land undir fót undanfarna mánuði hafa fengið að kenna á. “

Þetta er athyglisverð umfjöllun, sem segir okkur tvennt. Í lágu gengi felast þrátt fyrir allt líka tækifæri, stuðlar að aðlögun hagkerfisins, en er samt sem áður “óravegu frá langtímajafnvægi”.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband