Nú vandast málin !

EUNú eru mál farin að vandast nokkuð hjá okkur Sjálfstæðismönnum og óvíst hvernig við eigum að rata úr þeim vandræðum okkar. Þetta skal nú skýrt með nokkrum orðum.

Hversu oft höfum við ekki mátt sitja undir því að vilja ekki tala um Evrópumál. Ástunda einhvers konar þöggun. Mig rekur til dæmis minni til að hafa skrifað hér á þetta blogg pistil einn þar sem ég sagði framboð af umræðum um ESB væri meiri en eftirspurnin. Vísaði meðal annars til alls þess kynsturs sem um þau mál hefði verið skrifað og talað, meðal annars af okkur Sjálfstæðismönnum. Færði fyrir því rök að umræðan væri meiri en almenningur hefði áhuga á. Talaði kannski svipað og á Heimsýnarfundinum á sunnudaginn var þegar ég sagði:

"Þeir sem síðan segja að einhver þöggun hafi verið í gangi um Evrópumál vaða því í nokkurri villu og svíma. Umræður, rannsóknir, skýrslur og álitsgerðir um þessi mikilvægu mál nægja til þess fylla upp í loftrými lofts og gólfs í flestum venjulegum híbýlum."

Þegar ég skrifaði téð orð á bloggið mitt á sínum tíma reis upp bloggarinn afkastamikli Egill Helgason - Silfur Egils og taldi þetta hina mestu dellu og flutti einhver rök fyrir því.

Nú ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að taka nokkra mánuði í stefnumótun um Ísland í Evrópu; ekki langur tími að sönnu en grunnurinn er nægjanlegur til þess að þetta þurfi ekki meiri tíma.

Kemur þá ekki á vettvang sami Egill Helgason sem fyrir skemmstu sakaði okkur Sjálfstæðismenn um tómlæti í Evrópumálum og gagnrýnir okkur fyrir að taka tíma til þessa verks, þegar við ættum annað þarfara að gera! Er þetta ekki stórfurðulegt.

Það er hins vegar rangt að umræðan um stöðu Íslands innan Evrópu hamli öðrum verkum. Þau verk eru unnin eins og tíunda má í löngu máli og við blasir.

Og hvenær er annars of mikið af Evrópuumræðu og hvenær of lítið? Það er spurningin, eins og eitt sinn var sagt. Egill Helgason hefur svar við því. Evrópuumræðan er aldrei í réttum skömmtum !




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband