Ekki Samfylking í eintölu heldur samfylkingar í fleirtölu

Húsráðandi fjarverandiSamfylkinguna þraut örendið. Flóknara er það nú ekki. Þegar á reyndi brast kjarkurinn og síðan var farið í að reyna að búa til einhverjar, eftir-á-skýringar.

Ríkisstjórnin var afar vel verkfær og kom miklu í framkvæmd á verktíma sínum. Eftir bankahrun var gripið til margra og viðurhlutamikilla efnahagsráðstafana. Það getum við kynnt okkur með því að lesa ágæta ræðu Össurar Skarphéðinssonar iðnaðarráðherra á Alþingi sl. fimmtudag. Hans meginstef var lýsing á margháttuðum verkum sem ríkisstjórnin hrinti í framkvæmd og ekki síður lýsing á þeim mörgu tækifærum sem við værum að hrinda úr vör.

En nú mæta vinir hans í Samfylkingunni til leiks með rýtinginn í erminni og hefja verkefni sitt við að tala í þveröfuga átt.

Nú er sagt að verkstjórnin í ríkistjórnarsamstarfinu hefði þurft að vera kröftugri. Ekki rímar það við þau miklu afköst sem ríkisstjórnin hefur sýnt og Össur lýsti af svo mikilli ástríðu. Vandinn var ekki ónóg verkstjórn, það vantaði ekkert upp á hana. En á hina ístöðulitlu samfylkingarmenn, sem fóru út og suður við minnsta tilefni, þurfti allt annað og meira en verkstjórn. Þeir þurftu hreina handleiðslu ættu þeir ekki að fara af límingunum þegar á móti blés.

Þetta sáum við þegar trommuslátturinn jókst nú eftir áramótin. Þá var farið að leita útgönguleiða, sem kom svo ágætlega í ljós nú síðustu dægrin. Þessi öfl náðu undirtökunum og báru þá ágæta samverkamenn okkar úr Samfylkingunni ofurliði þegar til stykkisins kom.

Þess vegna breytti litlu þótt við værum tilbúin til efnislegs samkomulags, hvort sem var um aðgerðir í þágu heimila eða atvinnulífs eða uppstokkun í Seðlabanka, Fjármálaeftirliti eða ríkisstjórn. Þá voru einfaldlega búin til ný efnisatriði, í leit að nógu stórum ásteitingarsteinum til að hlaupa frá ábyrgð sinni.

Vandi Samfylkingarinnar er nefnilega fyrst og síðast sú að hún er ekki Samfylking í eintölu, heldur samfylkingar í fleirtölu. Ólík öfl sem erfitt er að skipa í heild eða skipulega fylkingu.

Þess vegna þraut flokkinn örendið, leitaði sér útgönguleiðar og hætti ekki þeirri leit fyrr en að hún bar árangur. Það var ekki efnislegur, pólitískur ágreiningur sem grandaði ríkisstjórninni, heldur innri vandamál samstarfsflokks okkar.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband