Við getum unnið okkur út úr vandanum

Það er ástæða í upphafi að óska nýrri ríkisstjórn velfarnaðar í vandasömum störfum. Hún tekur nú við, í skugga mikilla erfiðleika sem óhjákvæmilegt er að áfram sé tekist á við af festu og ábyrgð. Það gefur auga leið að ýmislegt fór úrskeiðis hjá okkur og átti sinn þátt í því í kjölfar alþjóðlegrar fjármálakreppu að illa fór. Við skulum horfast í augu við þetta, læra af reynslunni og tryggja að slíkt endurtaki sig ekki.

Samfylkinguna þraut örendið

Fráfarandi ríkisstjórn glímdi við hinar fyrstu afleiðingar bankahrunsins og efnahagskreppunnar, með myndarlegum hætti, þar sem teknar voru skjótar og markvissar ákvarðanir á fjöldamörgum sviðum sem eru nú sem leiðarljós inn í framtíðina. Í farvatninu voru síðan enn frekari og bráðnauðsynlegar aðgerðir, sem höfðu það að markmiði að koma bankaþjónustunni í skikkanlegt horf, styrkja atvinnusköpunina og grípa til aðgerða til bjargar heimilum og atvinnulífinu. Um það get ég borið vitni að ekki var um að ræða ágreining um þessi mál í fyrri ríkisstjórn. Þeim málum miðaði vel áfram og hefðu að öllu óbreyttu verið komin fram mörg hver. Því miður þraut annan stjórnarflokkinn Samfylkinguna hins vegar örendið og kiknaði í hnjánum undan þeim erfiðu verkefnum sem við var að glíma. Þess vegna slitnaði upp úr stjórnarsamstarfinu og við fengum pólitískan óstöðugleika ofan í vandræði okkar, eins og blasað hefur við öllum þeim sem hafa fylgst með atburðarás síðustu vikna.

Grunnur lagður - en framundan eru gríðarleg verkefni

Með samkomulagi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, skýrri stefnu í ríkisfjármálum og fjölmörgum aðgerðum í þágu heimila og fjármálalífs má segja að lagður hafi verið ákveðinn grunnur. Framundan eru hins vegar gríðarlega viðurhlutamikil viðfangsefni sem nauðsynlegt er að takast á við af festu. Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að byggt verði á mjög aðhaldssamri og ábyrgri stefnu í efnahags- og ríkisfjármálum. Því lofar það ekki góðu að það sem helst hefur sést til verka ríkisstjórnarinnar fram til þessa stefnir í þveröfuga átt. Við höfum fengið að sjá útgjaldahugmyndir, en engar aðhaldsaðgerðir. Það kemur í sjálfu sér ekki á óvart. Sporin hræða. Og þegar við rifjum upp málefnalega fortíð þeirra sem fyrir núverandi ríkisstjórn standa er ekki annars að vænta því miður en að áherslan verði ekki á aðhaldssemi, heldur miklu fremur lausatök. Það er alveg ljóst að slík stefna mun framlengja efnahagskreppuna og stuðla að hærra vaxtastigi sem blóðmjólkar atvinnulífið og heimilin.

 Ekki uppörvandi

Fyrstu dagar nýju ríkisstjórnarinnar eru heldur ekki uppörvandi.  Málin frá ríkisstjórninni streyma  sem á færibandi, - það er að segja ágreiningsmálin. Hingað til hefur enginn dagur liðið án þess að þau birtist í einu eða öðru formi. Í fyrradag voru það stóriðjumálin. Og enn veit enginn hvort fylgt sé uppbyggingarstefnu hæstv. iðnaðarráðherra, eða stoppstefnu  hæstv. umhverfisráðherra. Í gær rifust hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra um gjaldmiðilsmál frammi fyrir þjóðinni og fullum sal af fréttamönnum. Og í morgun sáum við glitta í ansi efnilegt rifrildi um evrópusambandsmál, sem ýmist eru sögð úti á köldum klaka, eða á tvíbreiðri hraðbraut, með fyrirhuguðum breytingum á stjórnarskránni. Eða eru Vinstri græn sammála formanni Samfylkingarinnar um að tilgangurinn með boðuðum breytingum á stjórnarskrá, sé að greiða fyrir ESB aðild. Það er algjörlega óhjákvæmilegt að flokkurinn svari þessu með skýrum hætti hér í þessari umræðu.

 Hinni nýju ríkisstjórn er afmörkuð 80 daga stund, til verka sinna. Haldi hún uppi háttum sínum má búast við að það verði tími 80 ágreiningsefna, einnar deilu á dag.

Sjálfbærar hvalveiðar

 Ákvörðun mín sem sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra að halda áfram hvalveiðum í vísindaskyni og gefa út veiðiheimildir til 5 ára, hefur komið af stað umræðu sem á margan hátt hefur verið óvænt. Sérstaklega í ljósi þess að þessi  ákvörðun er studd vísindalegum rökum, nýtur stuðnings þriggja fjórðu hluta landsmanna, meirihluti þingheims hefur lýst stuðningi sínum við hana og er í samræmi við þingsályktun Alþingis, sem samþykkt var af miklum meirihluta alþingismanna og sem núverandi hæstvirtur sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra greiddi ekki atkvæði gegn.

Um rökstuðning við þetta mál þarf ekki að fjölyrða. Það er sjálfsagður réttur okkar sem fullvalda þjóðar að nýta auðlindirnar í hafinu við landið. Sú krafa sem við gerum til slíkrar auðlindanýtingar er að hún fari fram undir formerkjum sjálfbærrar nýtingar. Reglugerðin um hvalveiðar gerir einmitt ráð fyrir því að veiðarnar fari fram í samræmi við tillögur Hafrannsóknarstofnunarinnar um veiðar á hrefnu og langreyði beinlínis í þeim tilgangi að tryggja að veiðarnar séu ábyrgar og í samræmi við marg yfirlýsta stefnu okkar um  nýtingu sjávarauðlindanna. Hér er því um að ræða umhverfisvæna stefnumótun, sem þeir þingmenn sem hæst tala um náttúruvernd og sjálfbæra auðlindastefnu ættu að geta fylkt sér um.

Höfum stundað hvalveiðar frá árinu 2003

Og gleymum ekki einu. Hvalveiðar hafa verið stundaðar hér frá árinu 2003. Fyrst í vísindaskyni  og frá árinu 2006 einnig í atvinnuskyni.  Alls hafa verið veidd á þriðja hundrað dýr á þessum tíma.  Það má því til sanns  vegar færa að hvalveiðar séu  orðinn eðlilegur þáttur í auðlindanýtingu okkar, sem fráleitt væri því að víkja frá . Það er ástæða til að árétta að veiðar á langreyði hófust síðla hausts árið 2006. Vegna tregðu á markaðsaðgangi fyrir afurðir til Japans lágu þessar veiðar hins vegar niðri um tveggja  ára skeið. Nú hefur hins vegar verið greitt úr því. Markaðsaðgangur fyrir hvalaafurðir til Japans er tryggur og því er ekki eftir neinu að bíða.

80% aukning í komu ferðamanna á hvalveiðitímanum

Ótti margra við að hvalveiðar kynnu að valda erfiðleikum annarra atvinnugreina hér á landi, svo sem ferðaþjónustu hefur sem betur fer reynst ástæðulaus. Mikill vöxtur hefur þvert  á móti verið í ferðaþjónustunni og hefur erlendum ferðamönnum sem komið hafa hingað til lands fjölgað úr 278 þúsund í ríflega 500 þúsund, eða um 80%  frá árinu 2002, árinu áður en hvalveiðar hófust.

Þegar það liggur fyrir, að við erum hér að tala um atvinnugrein, sem byggir á skynsamlegri og ábyrgri auðlindanýtingu, er í samræmi við alþjóðlegar reglur og samþykktir og íslensk lög. Atvinnugrein sem skapar okkur verðmæt störf, á tímum atvinnuleysis, býr til gjaldeyri sem mikil þörf er á og getur starfað á eigin viðskiptalegu forsendum með sölu afurða, þá er algjörlega útilokað annað en að við heimilum áframhald hans.

Ráðherraofríki? 

Og eitt enn vil ég nefna í þessu sambandi.  Í tengslum við myndun ríkisstjórnarinnar var mjög mikil áhersla lögð á að styrkja þyrfti stöðu Alþingis. Það er sannarlega fagnaðarefni að þannig eigi að halda áfram á þeirri braut sem farin hefur verið undanfarin ár með eflingu á starfsemi Alþingis. En myndi það nú ekki skjóta skökku við, ef ráðherra í minnihlutastjórn tæki þá einhliða ákvörðun  sem fæli það í sér að fara gjörsamlega á svig við vilja Alþingis, sem innsiglaður var með samþykkt þingsályktunar af yfirgnæfandi  meirihluta þeirra sem tóku þátt í afgreiðslu málsins. Slíkt væri ekki ráðherraræði, eins og stundum er sagt, heldur hreint ráðherraofríki, stjórnartaktar sólkonunga en ekki ráðherra sem sækir stöðu sína og vald til þingsins.

Þess vegna trúi ég því ekki fyrr en ég tek á því að ríkisstjórn sem er undir forsæti þingreyndasta þingmanns á Alþingi Íslendinga, eða að sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra, sem hefur næst mestu þingreynsluna  fari með harkalegum hætti gegn þingviljanum.

Höfum alla burði til að vinna okkur út úr vandanum

Við erum sannarlega í miklum vanda stödd. En við erum kraftmikil þjóð, með sterka innviði og höfum alla burði til að vinna okkur út úr þessum vanda. Þar munu þeir hins vegar valda, sem á halda. Þess vegna ríður á að vanda vel til verks. Ekki ganga fram með misvísandi skilaboð og kæruleysislegum útspilum sem rýra tekjumöguleika okkar og dýpka kreppuna. Við þurfum að hefja okkur upp yfir stundarríginn og sameinast um öfluga framfarasókn í þágu þjóðarinnar.

 




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband