Óskaplega fara þau illa af stað

Hriplekt stjórnarfleyÁ óvart kemur hversu nýja ríkisstjórnin fer illa af stað. Yfir henni virðist vera eitthvað lánleysi; vandræðagangur, sem eltir stjórnina uppi í hverju málinu á fætur öðru.

Látum liggja á milli hluta allan vandræðaganginn og ósamstöðuna í hverju málinu á fætur öðru. Hér á þessari síðu voru fyrstu dagar slíkra uppákoma raktir á dögunum og stöðugt bætist í þann sarpinn.

En vandræðin halda sífellt áfram og taka á sig stöðugt nýjar birtingarmyndir; miklu fleiri en maður gat ímyndað sér að væru til. Þetta er áhyggjuefni, af því að ríkisstjórnin hefur vandasömu og ábyrgðarmiklu hlutverki að gegna á svona erfiðleikatímum. Þess vegna veldur það kvíða hjá þjóðinni að upplifa svona vandræðalega hluti.

Tökum dæmi af bréfi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um fyrirhugaðar breytingar á Seðlabankalögunum. Það mun hafa borist um helgina. Um miðjan mánudag var ekki ennþá búið að greina forsætisráðherranum, þeirri vænu konu Jóhönnu Sigurðardóttur frá tilurð bréfsins. Aðstoðarmaður hennar sagði svo nokkrum klukkustundum eftir að málið hafði komið til tals á Alþingi, að frumkvæði Birgis Ármannssonar, að hann vissi ekki til þess að svona bréf hefði birst. Þetta er alveg makalaust.

Síðan var hins vegar rokið í að greina frá tilurð þess, rétt fyrir sjö fréttir Sjónvarpsins! - Þetta er ofureinfaldlega ekki í lagi.

Annað dæmi. Þórunn Sveinbjarnardóttir þingmaður Samfylkingar og fyrrv. umhverfisráðherra talar um hvalamál og lýsir vel þekktum skoðunum sínum. Hennar helsta nýbreytni í röksemdafærslunni var að nú þyrftum við að sýna þeim þjóðum sérstaka tillitssemi, sem eru að pína okkur og kvelja vegna Ice-Save, reikninganna. Eins og það sé brýnast að hverfa frá hvalveiðum af nærgætni við þá herramenn mister Brown og Darling, sem settu á okkur hryðjuverkalögin !

Heyr á endemi !

Og loks má nefna dæmið af henni Kolbrúnu Halldórsdóttur umhverfisráðherra sem lét eins og alþjóðlegar samningsskuldbindingar meinuðu okkur að stunda hvalveiðar, þegar hið gagnstæða liggur fyrir og hefur margoft verið rakið. Ég meina. Hún er ráðherra umhverfismála og á að vita betur.

Svona hrannast dæmin upp og það bara á einum degi sem sannarlega lofar ekki góðu um framtíðina;  og það er eiginlega verst.

 




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband