Tilraun til að afvegaleiða umræðuna

SeðlabankinnNý ríkisstjórn sem ætlar sér fáa daga til verka sinna vandar að sjálfsögðu og velur af kostgæfni þau mál sem hæst eiga að bera í upphafi vegferðarinnar. Frumvarpið um Seðlabankann, átti að vera frumvarpið sem gæfi stjórninni góðan byr í seglin. Búið var að byggja upp andstöðu við stjórnendur bankans. Frá sjónarhóli VG og Samfylkingar var því tilvalið að gera það frumvarp að eins konar vörumerki stjórnarinnar.

Frumvarpið hefur náð þeim tilgangi; en með allt öðum formerkjum en til stóð.

Seðlabankafrumvarpið var illa unnið. Um það deilir enginn lengur. Það var unnið í kjöltu forsætisráðherrans upp úr gömlum breytingartillögum þeirra Jóhönnu Sigurðardóttur og fleiri og var svo sótt í gamalt frumvarp úr samfylkingarsmiðjunni. Björgulegra var það nú ekki.

Þetta fletti ofan af auðsæjum tilganginum; sem sé að koma Davíð Oddssyni úr stóli seðlabankastjóra. Aðdragandinn (hið klaufalega og ótrúlega bréf forsætisráðherrans til bankastjóra Seðlabankans), vandræðaleg þögn vegna athugasemda Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og krafan um fljótaskrift við afgreiðslu máls sem snýr að skipulagi stjórnsýslu við peningamálastjórnina. Allt var þetta líkt og kennslustund í því að upplýsa okkur um raunverulegan tilgang frumvarpsins.

Þess vegna er það rangnefni að kalla frumvarpið, frumvarp til laga um breytingu á lögum um Seðlabanka Íslands. Þetta er bara frumvarp um að reka Davíð Oddsson. Svo einfalt er það.

Athugasemdir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eru ekki tæknilegs eðlis, eins og reynt var að skrökva að okkur. Þær lúta að meginefni, fletta upp nýjum álitamálum, vekja athygli á því að ekki er farið í efnisatriði í þessu frumvarpi sem ástæða væri að gefa gaum samhliða.

Þetta er mikið áhyggjuefni. Það er ekki gott þegar ríkisstjórn kastar fram illa búnu frumvarpi sem lýtur að mikilvægum þáttum og sem getur haft áhrif á hvernig til tekst í framtíðinni. Svo ekki sé talað um þegar reynt er að afvegaleiða umræðuna með því að segja okkur að efnismiklar athugasemdir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins séu bara tæknilegs eðlis.

Svona geta stjórnvöld ekki komið fram gagnvart þinginu; hvað þá gagnvart þjóðinni.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband